Um helmingur veiktist eftir hangikjötsveislu á Tenerife

Nostalgía er feykivinsæll Íslendinga matsölustaður á Tenerife.
Nostalgía er feykivinsæll Íslendinga matsölustaður á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Um helmingur gesta í hangikjötsveislu á Íslendingabarnum Nostalgíu á Tenerife á jóladag veiktist af magakveisu eftir að veisluhöldum lauk.

Þetta staðfestir Herdís Hrönn Arnadóttir eigandi staðarins í samtali við mbl.is.

Hvorki hún né eiginmaður hennar viti hvað olli veikindunum, en Herdís bendir á að þau hafi haldið hangikjötsveislu margoft áður og alltaf útbúið matinn á sama hátt með góðum árangri.

Gestir veiktust margir tveimur til þremur tímum eftir að þeir höfðu snætt á barnum.

„Ég hefði gjarnan viljað að þetta fólk hefði ekki þurft að eyða jólunum ælandi. Þetta gekk yfir hjá flestum á þremur tímum. Við borðuðum líka matinn og veiktumst ekki, flestir urðu ekki veikir.“

Óhappatilvik á þrettánda boðinu

Hún bendir á að þetta hafi verið í þrettánda sinn sem þau héldu hangikjötsveislu síðan staðurinn opnaði árið 2016 og að dæmigert sé að illa fari þegar á ólukkutöluna er komið. 

Herdís segist taka alla ábyrgð á veikindum gesta á barnum og telur að mögulega hafi einhver hluti hangikjötsins verið skemmdur.

Hún bætir þó við að margir sem sóttu ekki veisluna þeirra hafi einnig veikst af magapest yfir jólin og að gestur sem borðaði kjúkling í stað hangikjöts hafi veikst sömuleiðis. Orsök veikindanna er því óljós.

„Við áttum von á 60 manns annan í jólum en við byrjuðum á því að hringja í alla sem áttu bókað og slaufuðum þeirri veislu. Það er sorglegt að henda þessu kjöti en það eru margir sem hafa það verra,“ segir Herdís og bætir við að þrátt fyrir tjón haldi þau í góða skapið.

Herdís Hrönn Arnadóttir eigandi Nostalgíu.
Herdís Hrönn Arnadóttir eigandi Nostalgíu. Ljósmynd/Aðsend

Enginn bilbugur á Íslendingum sem sækja staðinn

Hún segir að þrátt fyrir þetta óheppilega tilvik séu Íslendingar á Tenerife ekki smeykir við að sækja staðinn og að fullbókað sé í áramótaveislu á gamlárskvöld. 

„Við erum með 70 manna áramótaveislu. Ég er búinn að fá skilaboð frá mörgum sem vonuðust til þess að einhverjir væru búnir að afpanta en fólk er frekar að senda staðfestingu á því að það muni koma.“

Hún segist miður sín vegna þessa en að mikilvægast sé að bera einhvern lærdóm af og að halda ótrauð áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert