Litlu tækin of lítil og stóru of stór

Göngustígar eru víða þannig að gangandi vegfarendur geta ekki notað …
Göngustígar eru víða þannig að gangandi vegfarendur geta ekki notað þá. mbl.is/Arnþór

Snjómagn á göngustígum í sumum hverfum borgarinnar er svo mikið að lítil ruðningstæki ráða ekki við það. Erfitt getur hins vegar verið að nota stærri tæki vegna þrengsla og verður mokstur því ansi snúið verkefni, að sögn Eiðs Fannars Erlendssonar, yfirmanns vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg.

Sumstaðar hafa göngustígar í íbúðagötum ekkert verið ruddir frá því fór að snjóa fyrir jól og staðan þannig að gangandi vegfarendur geta varla nýtt sér stígana. Eiður staðfestir að lítið sem ekkert hafi verið farið í ruðning á göngustígum í íbúðagötum sem tilheyra þjónustuflokki 3, sem er sá síðasti í forgangsröðuninni. 

„Á mörgum þessara stíga er snjómagnið það mikið að þessar litlu vélar sem eru að keyra á stígunum ráða ekki við að ýta því á undan sér. Við erum svolítið háðir því hversu stórar vélar geta verið, til að komast á milli. Sumstaðar eru þrengsli og þá er þetta miklu seinvirkara. Það þarf að fara með stærri vélar og hreinsa úr og sæta lagi við að opna. Þá tekur þetta allt miklu lengri tíma. en þetta gengur allt hratt og smurt þegar við getum keyrt á góðum hraða á litlu tækjunum,“ segir Eiður í samtali við mbl.is

„Við erum í þessu núna að reyna að opna þetta allt saman,“ bætir hann við.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Litlu vélarnar ná bara ákveðinni þyngd

Eiður segir snjóruðning á göngustígum vera að taka töluvert lengri tíma en oft áður vegna þess hve snjómagnið er mikið. Snjórinn hefur náð að safnast upp og hann jafnframt orðinn vel þungur.

„Þessar litlu vélar sem við erum með eru bara ekki nógu þungar til að ýta á undan sér svona miklu. Þær ná bara upp ákveðinni þyngd,“ útskýrir Eiður. Þyngri vélar eru stærri og þá verður plássleysið vandamál.

„Það hefur verið bent á það á götunum að ef það væru fleiri menn að vinna og fleiri tæki, þá myndi þetta ganga hraðar og það myndi klárlega gera það. En þarna er þetta öðruvísi. Við erum háðir því að hafa tæki af ákveðinni stærð en svo þegar snjórinn er kominn upp fyrir ákveðin mörk þá henta þau tæki ekki í verkefnið lengur og stærri tæki ekki heldur. En við þurfum auðvitað að nota þau að því marki sem getum til að opna og koma okkur í gang aftur. Þetta er því aðeins snúnara.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Vonast til að sjá fyrir endann í næstu viku 

Eiður segir mokstur á göngustígum þó hafa gengið þokkalega á í efri byggðum og þar sem auðvelt er að moka snjónum frá og jafnvel aðstaða til að losa sig við snjó. Miðbærinn og Vesturbærinn séu erfiðari viðureignar vegna þrengsla.

Hann segir verkefnið þó ekki ómögulegt. „Þá fáum við stærri tæki í þetta og sú vinna er í gangi en hún tekur bara lengri tíma. Vonandi förum við að sjá fyrir endann á því í næstu viku, að það sé búið að fara í allt sem við erum með í þjónustu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn verið að vinna við þjónustuflokk 2

Snjómokstur er gerður eftir fyrirfram ákveðnum forgangi samkvæmt upplýsingum á vef Reykjavíkurborgar og eru fjórir mismunandi þjónustuflokkar fyrir göngu- og hjólastíga.

Í Þjónustuflokki 1a eru hjólastígar, þjónustuflokkur 1 eru stofnstígar, þjónustuflokkur 2 eru aðrir fjölfarnir stígar og í þjónustuflokkur 3 eru minna notaðir stígar, oft í húsagötum.

Allir stofnstígar ættu að vera opnir núna en enn er verið að vinna í þjónustuflokki 2, að sögn Eiðs. Eitthvað hefur þó verið farið í þjónustuflokk 3 samhliða því. „Það er verið að vinna í því á einhverjum stöðum en það hefur ekki komist allt fyrir sem er í þjónustuflokki 2.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert