Katrín og Scholz vilja útvíkka samstarf

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Olaf Scholz kanslari Þýskalands á blaðamannafundinum …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Olaf Scholz kanslari Þýskalands á blaðamannafundinum í Berlín í dag. AFP/Tobias Schwarz

„Ég er mjög ánægð með fundinn og heimsóknina til Berlínar. Þýskaland er mikilvægur bandamaður Íslands, bæði pólitískt og efnahagslega en ekki síður menningarlega. Ríkin hafa átt í góðu samstarfi og við deilum vilja til að útvíkka samstarfið enn frekar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á sameiginlegum blaðamannafundi eftir tvíhliða fund hennar með Olaf Scholz, kansl­ara Þýska­lands í Berlín í dag.

Leiðtogarnir voru spurðir út í stríðið í Úkraínu en Katrín sagði ríkin tvö staðföst og sameinuð í stuðningi við Úkraínu og að þau fordæmi árásir Rússa á óbreytta borgara og borgaralega innviði. Þá sagði hún samstöðu Evrópu og bandamanna okkar hinum megin Atlantshafsins vera mikilvægustu afleiðingu þessa hræðilega stríðs.

Katrín sagðist myndu taka hlýlega á móti kanslaranum á leiðtogafundi Evrópuráðsins í maí á Íslandi. Hún sagði ráðið mikilvæg stofnun í Evrópu og gildi hennar mikilvæg en Ísland fer með formennsku í Evrópuráðinu síðan í nóvember síðastliðinn.

Hún sagði Ísland ekki hafa áform um að ganga í Evrópusambandið á næstu árum og það væri ekki á stefnuskrá hennar ríkisstjórnar en að Ísland liti á Evrópu og Evrópuríkin sem sína nánustu vini og bandamenn og að Íslendingar njóti samstarfs við Evrópu innan evrópska efnahagssamningsins.

Í morg­un heim­sótti for­sæt­is­ráðherra höfuðstöðvar ís­lenska leikja­fyr­ir­tæk­is­ins Klang Games og þá tók hún þátt í há­degisviðburði á veg­um hug­veit­unn­ar Kör­ber Stift­ung þar sem fjallað var um for­mennsku Íslands í Evr­ópuráðinu, mann­rétt­indi, lýðræði, ör­ygg­is­mál í Evr­ópu og stríðið í Úkraínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert