Selenskí boðið og lögreglan leitar liðsinnis

Embætti LRH hefur keypt fleiri hjól vegna verkefnisins.
Embætti LRH hefur keypt fleiri hjól vegna verkefnisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Embætti ríkislögreglustjóra (RLS) hefur sent út viðvörun til ríkislögreglustjóra á Norðurlöndunum og embætti þeirra látin vita að hugsanlega verði formlega óskað eftir aðstoð frá lögregluembættum þar. Ástæðan er leiðtogafundur Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í vor. Verði formlega óskað eftir erlendri aðstoð yrði það í fyrsta skipti sem það er gert í tengslum við fundargæslu.

Hundruð lögreglumanna frá öllum lögregluembættum landsins koma til með að sinna öryggisgæslu vegna leiðtogafundarins. Verður þetta umfangsmesta verkefni íslensku lögreglunnar til þessa, mun stærra en t.a.m. þegar hingað komu utanríkisráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja árið 2002.

Leiðtogafundur Evrópuráðsins er sá fjórði í rétt um 75 ára sögu ráðsins. Er von á leiðtogum 46 ríkja, sendinefndum og öryggisvörðum. Eitt þessara ríkja er Úkraína og því gæti Volodimír Selenskí Úkraínuforseti verið í hópi þeirra sem sækja Ísland heim. Koma hans er þó ekki staðfest.

Krefjandi verkefni lögreglu

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá RLS, segir nú mikla undirbúningsvinnu í gangi. Verkefnið sé bæði krefjandi og spennandi.

Auk mannaflagreiningar sé verið að skoða þann búnað sem lögreglan þarf til að sinna verkefninu.

Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH) verður í lykilhlutverki þegar flytja á þjóðarleiðtoga á milli staða á meðan á fundi stendur. Segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri LRH, búið að fjölga í mótorhjólaflota embættisins, m.a. vegna leiðtogafundarins. Verður nú hægt að manna 22 hjól og verða þau notuð til að loka gatnamótum og ryðja umferð fyrir bílalestir.

Fundarstaður verður tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa í miðbæ Reykjavíkur og gista allir fundargestir í hótelum skammt frá. Til að trufla ekki líf hins almenna borgara á höfuðborgarsvæðinu segist Ásgeir Þór vonast til þess að flestir fundargestir lendi á Reykjavíkurflugvelli. Þaðan sé stutt að keyra hópinn.

Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert