Saknar ekki Covid-fundanna með Þórólfi og Ölmu

Víðir Reynisson á upplýsingafundi almannavarna 12. maí 2021.
Víðir Reynisson á upplýsingafundi almannavarna 12. maí 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, segist ekki sakna þess að funda með Þórólfi Guðnasyni og Ölmu D. Möller á hverjum morgni klukkan sjö. Ár er síðan að öllum takmörkunum vegna heimsfaraldursins Covid-19 var aflétt á Íslandi, ákvörðun sem Víðir efaðist um. Víðir ræddi liðið ár, faraldurinn og heilbrigðiskerfið við blaðamann mbl.is.

„Ég held að það séu allir guðs lifandi fegnir að vera ekki á kafi í þessu eins mikið og var. Maður er auðvitað glaður þegar maður vaknar á morgnana og sé ekki að fara að mæta á Covid-fund með Þórólfi þó það sé nú alltaf gaman að hitta hann. Að hitta Þórólf klukkan sjö á morgnana á hverjum morgni, það var komið gott sko,“ segir Víðir.

„Við Þórólfur og Alma hittumst náttúrulega á hverjum einasta morgni í tvö ár má segja, ef ekki í persónu þá í síma eða á fjarfundum. Þetta eru náttúrulega orðnir vinir manns eftir þetta en ég sakna þess ekki að hitta þau á hverjum degi klukkan sjö,“ segir Víðir.

Sagan dæmir árangurinn

„Þetta er ótrúlega langt síðan, en samt stutt síðan. Þetta síðasta ár var einhvern veginn sérstakt, maður var að jafna sig eftir þessa miklu törn,“ segir Víðir um síðasta árið.

Hann segir að unnið hafi verið í Covid-tengdum verkefnum langt fram eftir árinu og að í sjálfu sér er ekki búið að gera upp allt sem var í gangi þessi tvö ár.

„Auðvitað held ég, eins og allir, að það sé gott að við séum komin í gegnum þetta. Svo á svo sem sagan eftir að dæma okkur hvernig þetta gekk í heildina. Margt gekk vel og annað gekk ekki eins vel.“

Víðir, Þórólfur og Alma á einum af hinum fjölmörgu upplýsingafundum …
Víðir, Þórólfur og Alma á einum af hinum fjölmörgu upplýsingafundum almannavarna og embættis landlæknis. Ljósmynd/Almannavarnir

Dáist að aðlögunarhæfni fólks

„Það sem mér finnst alltaf hafa skipt svolítið miklu máli í þessu hvað við vorum tiltölulega snögg að breyta til þegar kom einhver ný vitneskja og við vissum eitthvað meira í dag en í gær, þá vorum við aldrei feimin við það að snúa við og gera eitthvað annað,“ segir Víðir en hann segist dást að aðlögunarhæfni fólks.

„Það kemur upp einhver staða, hlutunum er einhvern veginn algjörlega hvolft: vinna heima, vera í skólanum í gegnum Teams, geta ekki farið í heimsókn til ættingja á hjúkrunarheimili, örfáir mega vera í jarðarförum. Alls konar hlutir sem við aðlöguðum okkur að og leystum úr sem þjóð.“

Fer ekki á milli húsa oftar en hann þarf

Telur þú eitthvað hafa breyst í hegðun fólks til frambúðar?

„Ekkert svona stórkostlega, kannski sem betur fer. Það sem hefur breyst til góðs og er komið til að vera, að minnsta kosti í tengslum við mína vinnu, það er kunnáttan við fjarfundi og miklu færri ferðalög og svoleiðis,“ segir Víðir.

Hann segir að fjarfundir komi ekkert í staðinn fyrir alla staðfundi en það sé samt þannig að það séu miklu fleiri fundir í gegnum fjarfundarbúnað.

„Maður er ekkert að fara á milli húsa á höfuðborgarsvæðinu oftar en maður þarf, því maður getur yfirleitt tekið fundi á Teams. Það sparar bæði tíma og peninga og er umhverfisvænt.“

Víðir Reynisson á blaðamannafundi almannavarna vegna eldgossins í Meradölum í …
Víðir Reynisson á blaðamannafundi almannavarna vegna eldgossins í Meradölum í ágúst í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Efasemdir með allsherjar afléttingu

Á miðnætti aðfaranætur 25. febrúar fyrir ári síðan var öllum tak­mörk­un­um vegna heims­far­ald­urs Covid-19 aflétt á Íslandi, bæði inn­an­lands og á landa­mær­um.

„Við vorum mörg með miklar efasemdir um að þetta væri rétti tímapunkturinn,“ segir Víðir.

Hann segir að þegar hafi verið búið að ræða málin í dálítið langan tíma og búið að horfa á heildrænu myndina og ríkisstjórnin var búin að fara yfir málin með því að reyna að taka allt til skoðunar, þá út frá heildarsjónarmiðum hafi þetta verið rétti tíminn til að aflétta takmörkununum.

„Þegar var horft á sóttvarnarsjónarmiðin og álagið á spítalann og annað, þá var þetta náttúrulega ekkert búið,“ segir Víðir.

„Það voru mjög strembnar vikurnar og fyrstu mánuðirnir eftir þetta fyrir heilbrigðiskerfið. Það var heilmikið í gangi í kringum þetta í marga mánuði eftir að takmörkunum var aflétt.

Ég var að vona að það þyrfti ekkert að grípa til neinna aðgerða en ég var ekkert alveg sannfærður um að svo yrði ekki.“

Var eitthvað rætt að setja aftur á takmarkanir?

„Nei ekki í neinni alvöru. Það var lagt mat á stöðuna og skoðað sviðsmyndir og gert hættumat hvar væri hugsanlega hætta á að eitthvað myndi bresta sem þyrfti að bregðast við. Sem betur fer fundust aðrar leiðir til að takast á við það heldur en takmarkanir,“ segir Víðir.

Heilbrigðiskerfið laskað eftir faraldur

Víðir segir að heilbrigðiskerfið hafi laskaðist mjög mikið í faraldrinum.

„Þegar við erum að verða búin að jafna okkur á þessu þá verða menn að skoða það heildstætt hvernig heilbrigðiskerfið þarf að geta tekist á við svona atburði og komist í gegnum það án þess að stoppa allt samfélagið af,“ segir Víðir.

Hann segir það hafi verið stóra áskorunin í faraldrinum að halda álaginu undir þeim mörkum að heilbrigðiskerfið myndi ekki bresta.

Gífurlegt álag var á heilbrigðisstarfsfólki í faraldrinum.
Gífurlegt álag var á heilbrigðisstarfsfólki í faraldrinum. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Hræddur um óbreytta stöðu í næsta faraldri

„Það er auðvitað hægt að bregðast við því núna þegar það er friður í þessum málum að taka kerfið til gaumgæfilegrar skoðunar út frá reynslunni í Covid og sjá hvernig við byggjum kerfið sterkar upp þannig það verði áfallaþolnara og það þurfi meira til til þess að það verði farið að grípa til samfélagslegra takmarkana heldur en þurfti eins og kerfið var statt í mars 2020 og síðan mánuðina og árin tvö þar á eftir,“ segir Víðir.

Hann segir það eðli „svona hamfaraátaka“ að þegar þau eru yfirstaðin að þá sé fólk svo bugað og búið að fá svo nóg að gluggi tækifæranna, til þess að breyta, lokist.

„Það sem ég er svolítið hræddur um er að ef það verður ekki notað tækifærið núna mjög fljótlega að fara ítarlega í gegnum þessi kerfi sem voru undir hvað mestu álagi meðan faraldurinn var, þá verðum við í nákvæmlega stöðu þegar næsti faraldur kemur,“ segir Víðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert