Vantraust til bólusetninga barna orðið áþreifanlegt

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir þátttöku í bólusetningum hafa verið slakari árið 2021 en árin áður. Hún telur þróunina hér á landi aðallega vera sökum Covid-19-faraldursins en segir einnig að hún telji vantraust til bólusetninga hafa aukist.

skýrsla UNICEF sýnir að 67 milljónir barna hafa misst af einni eða fleiri bólusetningum á síðastliðnum þremur árum.

Samkvæmt skýrslunni tvöfölduðust tilfelli mislinga árið 2022 samanborið við árið á undan, en börnum sem lömuðust vegna mænusóttar fjölgaði um 16 prósent á sama tímabili

Þátttaka almennt slakari hér á landi

Í samtali við mbl.is segir Guðrún að helsta ástæða fyrir bakslagi í bólusetningum barna á heimsvísu séu misskipting og efnahagur.

Heimsfaraldurinn hafi þó ekki bætt úr skák í þeim efnum og að útgöngubönn, álag á heilbrigðiskerfi og skortur á heilbrigðisstarfsfólki hafi sett stórt strik í reikninginn.

Guðrún segir þátttöku almennt góða hér á landi en hún hafi verið slakari árið 2021. Hún telur faraldurinn vera aðalþrjótinn, en á tímabili hafi einnig verið skortur á MMR-bóluefni, gegn mislingum, rauðum hundum og hlaupabólu, en einnig vandræði við að ljúka öllum HPV-bólusetningum. 

Allar bólusetningar eru valfrjálsar á Íslandi, en spurð um þátttöku barna í og eftir COVID-19 faraldurinn segir Guðrún hana almennt hafa verið góða.

„Fólk vill almennt þiggja bólusetningar fyrir sig og börnin sín, það er mikill meirihluti sem vill það, bæði gegn Covid-19 og svo aðrar bólusetningar“ segir Guðrún.

Ný skýrsla UNICEF greinir frá miklu bakslagi í bólusetningum barna …
Ný skýrsla UNICEF greinir frá miklu bakslagi í bólusetningum barna á heimsvísu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Börn voru að deyja af mislingum, barnaveiki og mænuveiki“

Spurð hvort vantraust til bóluefna barna, sem skýrsla UNICEF nefnir, sé áþreifanlegt á Íslandi, svarar Guðrún játandi.

„Við urðum meira vör við upplýsingaóreiðu og rangar upplýsingar í dreifingu, og kannski meiri tortryggni og andstyggð gegn bólusetningum.“

Engin formleg könnun um tortryggni í garð bólusetninga hafi verið gerð hérlendis, en erlendar kannanir bendi til þess að vantraust hafi aukist á heimsvísu. 

„Því miður, það er eitthvað sem þarf að vinna gegn. Bólusetningar eru náttúrulega klárlega áhrifaríkasta og hagkvæmasta leiðin sem við höfum til að vinna gegn alvarlegum smitsjúkdómum,“ segir Guðrún.

„Við erum búin að gleyma hvernig þetta var áður en bólusetningar urðu útbreiddar. Börn voru að deyja af mislingum, barnaveiki og mænuveiki. Úti í heimi af öðrum sjúkdómum eins og berklum og kíghósta jafnvel. Þetta yrði mikið afturhvarf ef við værum að fara til baka í þessum málum.“

Mikilvægt að minna á bólusetningar

Í næstu viku hefst svokölluð bólusetningarvika í Evrópu og af því tilefni mun embætti landlæknis gefa út tilkynningar um gagnsemi bólusetninga. Einnig er árlegur bólusetningarfræðsludagur heilbrigðisstarfsfólks þann 28. apríl.

Guðrún telur mikilvægt að nýta og bæta þau kerfi og stofnanir sem við höfum til reiðu, eins og heilsugæslur og Heilsuveru til að til dæmis senda áminningar til fólks til að minna á bólusetningar eða láta vita ef bólusetningu vantar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert