Þurfum að hlaupa hratt og hraðar varðandi loftslagsmálin

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við skulum hafa það á hreinu að við þurfum að hlaupa hratt og við þurfum að hlaupa hraðar“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, varðandi loftslagsmarkmið Íslands, á opnum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun. „Við getum alveg náð þessu markmiði en við þurfum að gera mjög mikið.“

Tilefni fundarins var nýútgefin skýrsla umhverfisstofnunar, sem sýndi fram á að losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist á síðustu árum.

Loftlagsmarkmið Íslands eru að draga úr 55 prósent af losun Íslands fyrir 2030, það er losun á beinni ábyrgð Íslands. Vert er að nefna að stóriðnaður, sem er um 40 prósent af allri losun á Íslandi fellur ekki undir beina ábyrgð Íslands heldur Evrópska efnahagssambandsins (EES).

Segir Ísland hafa náð miklum árangri

Guðlaugur segist ekki vilja gera lítið úr því stóra verkefni sem sé fyrir höndum en segir Ísland samt sem áður hafa náð miklum árangri.

Við erum að miða við árið 2005 þegar við vorum 300.000 og ferðamenn voru 300.000.“ sagði Guðlaugur Þór.

„Nú erum við 400.000 og 2.3 milljónir ferðamanna í það minnsta, þannig að við höfum samt náð miklum árangri þegar kemur að orkuskiptum, í samgöngum þegar við tökum þetta inn í reikninginn.“

Frá fundinum fyrr í dag.
Frá fundinum fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur sagði vinnu nú standa yfir í ráðuneytinu við að uppfæra aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum og verður skýrslan gefin út seinna á árinu. Nýja áætlunin byggir á eldri áætlun um loftslagsmálin en mun taka mið af tillögum sem leiða af samtali við Samtök atvinnulífsins, sveitafélög, samtök í landbúnaði og fleiri um gerð á loftslagsvegvísi fyrir atvinnulífið.   

Stefnir í að ráðherra hafi sóað heilu kjörtímabili 

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður pírata tók til máls á eftir Guðlaugi og sagði það mikið áhyggjuefni að losun hefði aukist á síðastliðnum árum og að það bendi til þess að ekki hafi verið búið nógu vel í haginn fyrir græna endurreisn að lokum Covid eins og hafi verið kallað ítrekað eftir.

Sagði Andrés það benda til misbrests í kerfinu þegar þurfi að bíða í áraraðir eftir nýrri aðgerðaáætlun og sagði hann umhverfisráðherra stefna í að hafa sóað heilu kjörtímabili.

„Það heitir ekki að hlaupa hraðar að það séu næstum komin þrjú ár síðan þessi aðgerðaráætlun varð úrelt. Það snýst um pólitíska forgangsröðun ráðherra á verkefnum ráðuneytisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert