Vill 100% árangur í varnarmálum

Volodimír Selenskí ávarpaði fundinn.
Volodimír Selenskí ávarpaði fundinn. AFP

Volodimír Selenskí for­seti Úkraínu ávarpaði leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði sett fundinn formlega.

Selenskí lýsti því fyrir leiðtogunum hvernig loftvarnarkerfi Úkraínu hefðu stöðvað 18 rússnesk flugskeyti af ýmsum gerðum í nótt, meðal annars gerðum sem sagt hefur verið að ekki sé mögulegt að stöðva.

Hann sagði engan hafa fallið í tilraunum Rússa til loftárása í nótt. Það væri sögulegt og hann þakkaði leiðtogum Evrópu fyrir sinn þátt í að efla loftvarnarkerfi landsins.

Selenskí sagði að árangur næturinnar hefði ekki verið mögulegur fyrir einu ári og spurði hann fundinn hvort sameinuð gætum við ekki allt.

„Getum við þá ekki allt þegar við sameinumst?

„Ef við getum þetta, getum við þá ekki allt þegar við sameinumst og erum staðráðin í að vernda mannslíf?“

Hann sagði svarið við þeirri spurningu að ef við sameinumst munum við gefa 100% á hvaða sviði sem er með það að markmiði að vernda úkraínsku þjóðina og vernda Evrópu.

Selenskí sagði margt enn óunnið enda væri landsvæði Úkraínu mjög stórt og til þess að gera árangur næturinnar að reglu um allt landið þyrfti að bæta loftvarnarkerfi þess enn frekar. Forsetinn kallaði eftir eldflaugum, orrustuþotum og öðrum vopnum.

Hann sagði að 100% árangur í varnarmálum ætti að vera viðmiðið og 0% árangur árásarmananna. Hann sagði 100% árangur í varnarmálum aðeins verða tryggðan með vopnum og þjálfun hermanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert