Skógrækt dragi ekki úr komu ferðamanna

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir fjölda ferðamanna á tjaldsvæðum í skógum …
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir fjölda ferðamanna á tjaldsvæðum í skógum landsins hafi aukist mikið á síðustu árum. mbl.is

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir fullyrðingar Vina íslenskrar náttúru (VÍN), um að skógrækt muni draga úr komum ferðamanna til landsins, ekki standast skoðun.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Þrastar vegna bréfs sem VÍN sendu á Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaga landsins 14. apríl um ábyrgð sveitarstjórna á skipulagi skógræktar.

Í umsögn skógræktarinnar segir Þröstur að skógrækt hafi vissulega áhrif á ásýnd lands og lífríkið á þeim stöðum þar sem skógur sé ræktaður, en alvarleika þeirra og mikilvægi beri að meta samanborið við mikilvægi ágóðans. 

Þá segir hann að öllum sem kynni sér málið ætti að vera ljóst að allar framkvæmdir í nýskógrækt á Íslandi lúti ströngum reglum hvað varðar skipulag.

„Sú fullyrðing að skógrækt muni draga úr komum ferðamanna hingað til lands stenst hins vegar ekki skoðun,“ segir í umsögn Þrastar.

Fjöldi ferðamanna í tjaldsvæðum í skógum landsins hafi aukist mikið á síðustu árum og ásókn útivistarfólks í skóga landsins sé svo mikil að sums staðar hafi skapast núningur milli mismunandi útivistarhópa.

Órökstudd fullyrðing um slysahættu

„Sú fullyrðing að skógrækt með þjóðvegum geti aukið á slysahættu er órökstudd en hins vegar er rétt að kunnáttu þarf til að skipuleggja ræktun trjáa með fram vegum svo hún nýtist,“ segir Þröstur.

Hann segir reynsluna hafa sýnt að vel staðsettir skógar eða skjólbelti dragi úr vindhviðum á þjóðvegum landsins, auk þess að safna snjó réttum megin við veginn. Erlendar rannsóknir hafi sýnt að tré með fram vegum innan borgarmarka fækki slysum.

Þröstur bendir á það að vandræðalaust sé að fjarlægja tré eða skóga ef seinna komi í ljós að heppilegra væri að nýta landið á annan hátt.

„Það er því mjög undarlegt að halda því fram að endurheimt skóga á takmörkuðum landsvæðum skapi óyfirstíganleg vandamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert