Kenningar passi ekki við dauða lundanna

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði …
Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði með lundanum Tóta. Samsett mynd

Forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði segir hvorki kenningar um fæðuskort né fuglaflensu passa sérstaklega vel við lundana og aðra fugla sem finnast nú dauðir í hrönnum. Þá leggi hann til sölubann á lunda til þess að vernda stofninn. Hann sé meira virði lifandi en dauður.

Eins og mbl.is greindi frá í gær urðu íbúar við Löngufjörur og víðar á Vesturlandi varir við hundruð ef ekki þúsundir dauðra fugla. Mest var um dauðan lunda, sem vakti furðu hjá íbúum þar sem lundi sjáist sjaldan eða jafnvel aldrei á svæðinu.

Málið hefur vakið óhug hjá fólki og hvatti fuglafræðingurinn Jóhann Óli Hilmarsson, alla sem vettlingi geta valdið til þess að líta málið alvarlegum augum.

Sagði ástandið ekki kalla á bráðaviðbragð að svo stöddu

mbl.is heyrði í forstjóra Umhverfisstofnunar vegna málsins fyrr í dag og sagði hún atvik málsins ekki kalla á bráðaviðbragð að svo stöddu. Nauðsynlegt sé fyrir Umhverfisstofnun að heyra fyrst í samstarfsstofnunum sínum eftir helgi og athuga hvort að um fuglaflensu sé að ræða.

„Ef þetta er ekki það, og það eru ekki endi­lega vís­bend­ing­ar um að svo sé, þá eru að öll­um lík­ind­um vist­fræðileg­ar ástæður fyr­ir þessu sem Nátt­úru­fræðistofn­un myndi leggja mat á,“ sagði Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, spurð hvernig hún sjái fram­vindu máls­ins fyrir sér.

Hitti á versta hugsanlega tíma 

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði í segir samtali við mbl.is að dauðu fuglana sé að finna víða, þó virðist þetta bundið við Faxaflóa hingað til.

„Ég hef séð aðeins myndir af dauðum fuglum, lundum og þeir eru næstum allir fullorðnir varpfuglar og það er nú frekar óvenjulegt fyrir svona. Hversu mikil áhrif þetta hefur á stofninn ræðst af því hvað þetta er mikið og hvað þetta verður útbreitt. Það sem maður er að vona núna er að þetta sé staðbundið og það kemur bara betur í ljós þegar menn fara að kíkja í kringum sig,“ segir Erpur.

„Svona getur haft mjög stór áhrif ef þetta er svolítið svæsið og og sérstaklega hittir þetta á versta hugsanlegan tíma fyrir lundann því honum hefur ekki gengið mjög vel í áratugi núna,“ bætir hann við.

Lundarnir hafa fundist í fjörum víða.
Lundarnir hafa fundist í fjörum víða. Ljósmynd/Aðsend

Geta dáið innan nokkurra daga án fæðu

Svartfuglar og ritur hafa einnig fundist dauðar en Erpur segir hlut ritunar í þessu vera áhugaverðan þegar verið sé að reyna að átta sig á stöðunni. Dauðar ritur sem hafi fundist nýlega úti á Seltjarnarnesi hafi ekki verið greindar með flensu. Hann útilokar ekki annan vírus eða bakteríu en það sé erfiðara að greina.

„Það er líka önnur orsök sem er ekkert ólíklegri í eðli sínu og það er fæðuskortur. Ritan er nefnilega bundin við yfirborðið og lundinn hann kafar náttúrulega og getur kafað dálítið djúpt en hann er fyrst og fremst í fyrstu tuttugu metrunum. Ef það er svona öldugangur eins og var spáð þarna, átta, níu metrum, þá geta sílin grafið sig eða hvað sem hann er að éta farið lægra, þá ná þeir ekkert almennilega í þetta. Þetta er það sem veldur eiginlega þessum miklu sjófugladauðum sem eru kallað „wreck“ á ensku. Þetta sást eitthvað um ´90, ´91, ´92, ´93 fyrir norðan, alveg þúsundir svartfugla sem rak dauða á fjörur. Það er svoleiðis viðburður, þegar það er svona brjálað veður og þeir ná ekkert í fæðu í einhverja daga,“ segir Erpur og nefnir að lundinn brenni svo miklu og sé með svo háan efnaskiptahraða að án fæði geti þeir verið dauðir innan nokkurra daga.

„En þetta var nú ekkert svo langvinnur stormur þannig mér finnst þetta ekki alveg passa þarna. Maður veit ekki enn þá hvað þetta er og það verður bara að fá niðurstöður úr sýnum með það“.

Fuglinn öllu vanur 

Hann minnist á að lægðin hafi verið kröpp en fuglarnir lifi úti á miðju Atlantshafi allan veturinn og séu öllu vanir. Ástandið minni hann á það þegar súlurnar hafi byrjað að sjást á skrítnum stöðum í fyrra þegar þær voru orðnar veikar.

Erfitt sé að vita enn sem komið er hvort að um hvort að óveður, sýking eða fæðuskortur hafi valdið.

„Allskonar spurningum ósvarað“

Spurður hvort hann hafi séð annað eins svarar Erpur því neitandi. Vanalega gerist hlutir sem þessir á veturna. Sjálfur segist hann kjósa að um hungurdauða sé að ræða fremur en flensu en flensa geti haldið áfram. Hungur stemmi þó í raun ekki.

„Þetta er skrítinn tími fyrir hungur líka, núna á allt að vera komið á „full swing“ í Faxaflóa, sílið alveg komið í gír þarna, þetta stemmir ekki alveg við það heldur. Það er svona allskonar spurningum ósvarað og mikið af möguleikum í gangi eins og er og þetta er svona dæmi þar sem menn verða bara aðeins a afla meiri upplýsinga, útiloka eitt og pæla í fleiri möguleikum,“ segir Erpur.

Hann sé jafnframt hissa á seinagangi eftirlitsstofnana í því að fara á vettvang, taka sýni og komast að því hvað sé að ske. Viðbragðið mætti vera sneggra.

„Ekki það að þú sért að bjarga neinum með að vita þetta fyrr en þetta vekur upp spurningar og sérstaklega ef þetta eru sýkt hræ úti um allt. Ég meina, er það ekki eitthvað sem væri ástæða til að vara fólk við að vera ekki að fikta í þessu,“ segir Erpur og játar því að fólki þyki vænt um fuglinn. Svona atvik veki upp dapurlegar tilfinningar.

„Þetta eru ekki góðar fréttir, ég verð að segja það, það er ekki gaman að horfa upp á þetta,“ segir Erpur.

Lunda má sjá á víð og dreif við Löngufjörur.
Lunda má sjá á víð og dreif við Löngufjörur. Ljósmynd/Aðsend

„Miklu meira virði lifandi en dauður“

Spurður hvað hann myndi vilja sjá gert til þess að huga að stofninum segist hann vilja sjá sölubann lagt á lunda strax. Helst vilji hann einnig sjá veiðar á dýrinu fara niður í það að einungis þeir sem hafi réttindi til að veiða lunda geri það.

„Atvinnuveiðar eiga ekki heima í svona. Þetta er enn þá stærsti stofninn á landinu af öllum fuglum og hann ber að það sé kroppað í hann þó það sé ósjálfbært en að stunda atvinnuveiðar til að selja í mattorgum og veitingahúsum, þetta er bara ekki siðferðislega í lagi. Menn þurfa svona aðeins að nútímavæða sína afstöðu um það hvernig við umgöngumst náttúruna, þetta er ekki eins og við séum að lifa af þessu. Við erum eiginlega meira að lifa af þessu í formi túrisma og hann er miklu meira virði lifandi en dauður,“ segir Erpur.

Samkvæmt vinnutölum segir hann líklegt að í kringum tæpar þrjár milljónir lundapara sé að ræða í stofninum en rétt fyrir aldarmót hafi stærð stofnsins verið um átta milljónir para. Gögnin yfir stöðuna séu ekki alveg fullkomin.

Líklega meira en 70% af stofninum horfinn

Hann nefnir einnig að það sé ekki svo að staða fuglsins sé betri með tilliti til veiða á einum stað á landinu en öðrum. Veiðitölur leggist beint við náttúrudánartöluna hjá lundanum en hún er um sjö prósent. Með veiðum sé þá verið að hækka náttúrudánartöluna um hálft prósent.

„Við erum búin að missa sjötíu prósent af stofninum, eða líklega meira,“ segir Erpur en staða stofnsins verði metin betur í haust.

„Þetta er óhuggulegt, það er ekki eins og það sé ekki nóg búið að ganga á hjá þessum greyjum,“ segir Erpur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert