Fylgi VG og Frjálslyndra eykst samkvæmt skoðanakönnun

Ríkisstjórnarflokkarnir fengju 47,6% atkvæða ef gengið væri til kosninga nú samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. 21,2 prósent segjast myndu kjósa Samfylkingu en 19,4 prósent segjast myndu kjósa Vinstri græna. 10% ætla að kjósa Frjálslynda flokkinn. Samkvæmt því fengju Frjálslyndir sex þingmenn.

40,2 prósent þeirra sem afstöðu tóku sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og fengi hann samkvæmt því 26 þingmenn kjörna. 7,4 prósent myndu kjósa Framsóknarflokkinn yrði gengið til kosninga nú. Samkvæmt því fengi Framsóknarflokkurinn fjóra þingmenn kjörna.

Fylgi Samfylkingar hefur ekki mælst minna í könnunum Fréttablaðsins frá síðustu Alþingiskosningum. Ef þetta væru niðurstöður kosninga myndi flokkurinn fá 14 þingmenn.

Þingmenn vinstri grænna yrðu 12, ef þetta væru niðurstöður kosninga.

Hringt var í 800 kjósendur laugardaginn 20. janúar og skiptust svarendur jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til alþingiskosninga nú? 57,3 prósent aðspurðra tóku afstöðu til spurningarinnar, samkvæm frétt Fréttablaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert