Jón Sigurðsson: eigum að taka ákvarðanir varðandi ESB aðild á eigin forsendum

Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi í dag.
Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Afstaða Íslendinga til Evrópusambandsins hefur lengi verið til umræðu. Framsóknarmenn vilja taka virkan þátt í málefnalegum umræðum um allar hliðar Evrópumála og gjaldeyris- og viðskiptamála. En við eigum sjálf að velja tímann til stefnuákvarðana um slík efni. Og slíkar ákvarðanir eigum við að taka á grundvelli styrkleika okkar og eigin metnaðar sem frjáls þjóð. Þetta kom fram í ræðu Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins á flokksþingi flokksins í dag.

Að sögn Jóns er það ekki sanngjarnt að kenna íslensku krónunni um verðbólgu eða háa vexti. Fleira kemur til skoðunar í því samhengi.

„Við teljum ekki tímabært að taka núverandi afstöðu Íslands til endurmats fyrr en við höfum tryggt hér langvarandi jafnvægi og varanlegan stöðugleika í efnahags-, atvinnu- og gjaldeyrismálum. Slíkt tekur ekki minna en 4–5 ár. Á þeim sama tíma breytast bæði samfélag okkar og Evrópusambandið sjálft og því eru langtímaákvarðanir um breytta stefnu ekki tímabærar nú. Við höfnum því að Íslendingar láti hrekja sig til aðildar vegna einhverra vandræða eða uppgjafar. Við eigum sjálf að skapa okkur örlög sem metnaðarfull og frjáls þjóð," sagði Jón.

Ókyrrð í íslenskum stjórnmálum

Formaður Framsóknarflokksins gerði íslensk stjórnmál og ástand þeirra að umræðuefni í ræðu sinni.

„Nú er ókyrrð í íslenskum stjórnmálum og allra veðra von. Líkur benda til að stjórnarandstaðan sé að klofna í ennþá fleiri flokka en verið hefur. Þetta er að sönnu nokkurt merki um lifandi lýðræði en þetta sýnir engin merki um samstöðu innan stjórnarandstöðunnar.

Stjórnarflokkarnir eru ólíkir flokkar með ólíkar áherslur. Við erum ósammála um umfang einkavæðinga, samfélagshlutverk markaðarins, byggðaframlög, velferðarþróun og fleira. Við framsóknarmenn stöndum fast á okkar málum í baráttunni innan ríkisstjórnar sem utan þótt ágreiningur sé ekki alltaf borinn á torg. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa lengi tekist á í íslenskum stjórnmálum og það er margt sem ber í milli þessara flokka.

Mikil togstreita einkennir Samfylkinguna, milli þeirra sem vilja samstarf við vinstri græna og hinna sem vilja helst vinna með sjálfstæðismönnum, eins og fram kom nýlega í viðtali Morgunblaðsins við flokksformanninn. Og innan Samfylkingarinnar er djúpstætt vantraust svo sem fram kom í óvenjulegum ummælum flokksformannsins um þingflokk sinn fyrir nokkru.

Sumar yfirlýsingar vinstri grænna vekja furðu. Ofstopi þeirra á landsfundi um daginn hefur gengið fram af flestum landsmönnum. Einn foringi þeirra telur að það skipti litlu þótt fjármálastofnanir hverfi úr landi. En hann minntist ekki á áhrifin á viðskiptalíf þjóðarinnar, á tekjur ríkissjóðs, almennt atvinnuöryggi eða sjálfstæði okkar yfirleitt. Hann vill jafna tekjuskiptinguna í landinu með því að valda almennri tekjuskerðingu og afturför. Annar leiðtogi vinstri grænna óskar þess að mannvirkin miklu á Austurlandi mættu standa ónotuð. Það er ekki að spyrja um skilninginn á tekjuöflun í atvinnulífinu, á verðmætasköpun og hagþróun og á atvinnuþróun á landsbyggðinni.

Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður utan um óánægju og ótta fólksins í byggðunum en hefur verið að leita sér að málefnagrunni í ofstæki með skelfilega óheppilegum hætti.

Það þarf betri valkosti fyrir íslensku þjóðina en þessi andstöðuöfl. Menn verða að átta sig á þörfum og tækifærum í nútímaþjóðfélagi á Íslandi. Menn verða að svara því hvernig þeir hyggjast standa undir menntakerfi og velferðarkerfi með styrk í hagkerfinu og tekjugrunni ríkissjóðs," sagði Jón.

Áherslur stjórnarflokkana ólíkar

Jón tók það fram í ræðu sinni á flokksþinginu að framsóknarmenn verði að aðgreina sig vel í kosningabaráttunni.

„Stjórnarsamstarfið hefur gengið ágætlega en það liggur fyrir að áherslur stjórnarflokkanna eru ólíkar. Og ekki fer á milli mála að margt er til ágreinings milli okkar og annarra flokka. En bæði frá hægri og vinstri eru menn að laumast inn á miðjuna og blekkja fólk til fylgilags við sig með fagurgala," sagði Jón Sigurðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert