Ásakanir á báða bóga eftir frestun auðlindaákvæðis

eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

Auðlindafrumvarpið verður ekki afgreitt á þessu þingi en sérnefnd um stjórnarskrármál hefur haft það til umfjöllunar undanfarna daga. Í frumvarpinu er lagt til að náttúruauðlindir Íslands verði skilgreindar sem þjóðareign en skoðanir hafa verið mjög skiptar um málið, bæði meðal þingmanna, lögfræðinga og hagsmunaaðila. Sérnefndin ákvað því í gær að vísa málinu til stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra sem hefur fjallað um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá árinu 2005.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að formenn stjórnarflokkanna hafi gert heiðarlega tilraun til að koma málinu í höfn með þessu frumvarpi og hafi átt von á að stjórnarnandstaðan yrði fús til samstarfs eins og hún hafi gefið til kynna. "Það reyndist ekki vera og við höfðum ekki áhuga á að knýja mál sem þetta í gegn í krafti okkar þingmeirihluta í andstöðu við hugsanlega stóran hluta þingsins," segir Geir. "Það eru margvísleg sjónarmið í þessu máli en við höfum auðvitað ekki sagt skilið við það því það er ásetningur stjórnarflokkanna að ákvæði sem þetta komi í stjórnarskrá, eins og við sömdum um fyrir fjórum árum," segir Geir en bætir við að finna þurfi rétt orðalag svo um það geti náðst sátt.

Stjórnarandstöðuþingmenn saka hins vegar formenn stjórnarflokkanna um sjónarspil og segja að þing og þjóð hafi verið höfð að fífli. "Það var aldrei meining hjá þessum flokkum að gera neitt með þetta," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gærkvöld. Formenn stjórnarflokkanna hefðu komið með stjórnarskrártillögu sem hefði gert það eitt að skapa réttaróvissu í landinu fjórum dögum fyrir áætluð þinglok. "Svona haga menn sér ekki. Svona umgangast menn ekki lýðræðið."

Nánari umfjöllun er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert