Ómar formaður og Margrét varaformaður Íslandshreyfingarinnar

Forsvarsmenn Íslandshreyfingarinnar á blaðamannafundi í dag.
Forsvarsmenn Íslandshreyfingarinnar á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Margrét Sverrisdóttir og Ómar Ragnarsson kynntu í dag framboð til alþingiskosningarnar, sem ber nafnið Íslandshreyfingin - lifandi land. Flokkurinn hefur listabókstafinn Í. Merki framboðsins er þrílitur hringur, grænn, rauður og blár. Bráðabirgðastjórn flokksins hefur verið mynduð og er Ómar formaður en Margrét varaformaður. Þau skilgreina flokkinn sem miðjuflokk með aðaláherslu á umhverfismál.

Jakob Frímann Magnússon, sem einnig stendur að flokknum, sagði á blaðamannafundi í dag, að ýtarleg stefnuskrá yrði birt á næstu dögum. Ómar sagði á fundinum að kosningarnar í maí yrðu þær þriðju mikilvægustu í sögu Íslands. Árið 1908 hafi verið kosið um sjálfstæði þjóðarinnar, um landhelgina 1971 og að þessu sinni um landið sjálft.

Ómar sagði, að umhverfi, nýsköpun, velferð og aukið lýðræði væru markmið flokksins. Hann vildi að ný virkjanatækni yrði skoðuð og beðið með frekari stóriðju. Hægt væri að nýta orku betur með bættri tækni og myndu erlendir fjárfestar koma að slíkum rannsóknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert