Samgöngu- og atvinnumál eru talin mikilvægust

Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.
Suðurlandsvegur við Litlu kaffistofuna.

Samgöngumál, atvinnumál, málefni aldraðra og öryrkja og umhverfismál eru þau mál sem svarendur í könnun Capacent – Gallup nefndu oftast þegar kjósendur voru spurðir hvaða mál þeir teldu vera mikilvægustu mál á næsta kjörtímabili í kjördæmi þeirra.

Karlar höfðu meiri áhuga á samgöngumálum en konur, 38,5% á móti 21,2%. Konur höfðu hins vegar mun meiri áhuga á málefnum aldraðra og öryrkja en karlar, 15,1% á móti 6,6%. Áhersla á atvinnumál var hins vegar svipuð hjá kynjunum.

Greinilegur munur er á afstöðu fólks eftir kjördæmum. Þannig nefndu 36–41% kjósenda í NA- og NV-kjördæmi atvinnumál sem mikilvægasta kosningamálið en á höfuðborgarsvæðinu nefndu 1–4% þennan málaflokk. Áhugi á samgöngumálum er svipaður í öllum kjördæmum en þó mestur í Suðurkjördæmi (41%).

Ungt fólk leggur áherslu á umhverfismál

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu hafa mun meiri áhuga á málefnum aldraðra og öryrkja en kjósendur í landsbyggðarkjördæmunum eða 11–23% á móti 2–7% Sömuleiðis er áhugi á umhverfismálum mun meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni eða hjá 10–12% á móti 2–7%.

Ungt fólk hefur áberandi mestan áhuga á umhverfismálum eða um 18%. Kjósendur VG nefna umhverfismálin sömuleiðis mun oftar en kjósendur annarra flokka. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins nefna langoftast samgöngumál (44%) en miklu síður atvinnumál en kjósendur annarra flokka (8,5%). Capacent spurði einnig um hvað væri mikilvægasta mál næsta kjörtímabils. Flestir nefndu samgöngumál, atvinnumál, umhverfismál og málefni aldraðra og öryrkja. Mun færri nefndu t.d. sjávarútvegsmál, Evrópumál og menntamál.

Könnunin var gerð 14.–20. mars. 1.230 manns voru í úrtakinu og var svarhlutfall 61,5%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert