Lúðvík: Sögulegar kosningar

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að íbúakosningarnar í dag um stækkun álversins í Straumsvík séu sögulegar og mikilvægur áfangi í þróun íbúalýðræðis. Hafnfirðingar hafi einnig fjölmennt á kjörstað og tekið afstöðu í þessu stóra og jafnframt umdeilda máli þar sem skoðanir hafi verið mjög skiptar eins og sæist á niðurstöðunni, sem hefði í raun getað farið á hvorn veginn sem er.

Lúðvík sagði, að bæjarstjórnin hafi verið sammála um að fara þessa leið og einnig sammála um að virða niðurstöðuna, hver sem hún yrði. Greinilegt væri, að íbúar Hafnarfjarðar hefðu kynnt sér málið vel og metið ýmsa hagsmuni, svo sem afkomu bæjarins, umhverfisþætti og aðra þætti og þetta væri niðurstaðan.

Þegar Lúðvík var spurður hvort hann teldi að þessar kosningar myndu hafa einhver eftirköst í ljósi þess að bæjarbúar skiptust nánast í tvær jafnstórar fylkingar. Hann sagðist telja að íbúarnir verði fljótir að jafna sig á þessu enda væru Hafnfirðingar vanir hörðum kappleikjum. Því byggist hann við því, að menn myndu virða þessa niðurstöðu og horfa fram á veginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert