Sjálfstæðisflokkur stefnir að frekari skattalækkunum

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir tveimur árum.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir tveimur árum. mbl.is/Brynjar Gauti

Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að lækka skatta einstaklinga enn frekar, að því er kemur fram í drögum að ályktunum landsfundar flokksins, sem fer fram um næstu helgi. Þá vill flokkurinn, samkvæmt ályktunardrögunum lækka skatta fyrirtækja og aðlaga skattkerfið þannig að það verði jafngott eða betra en það sem gerist hjá samkeppnisþjóðum okkar.

Flokkurinn vill einnig fella niður alla tolla og lækka enn frekar vörugjöld á innflutning, fella niður stimpilgjöld, endurskoða álögur á bifreiðaeigendur og afnema lágmarksútsvar sveitarfélaga. Þá leggst flokkurinn alfarið gegn þeim hugmyndum sem fram hafa komið um að hækka beri fjármagnstekjuskatt.

Í drögum að ályktun um fjölskyldumál er m.a. lagt til að verðmæti lífeyrisréttinda, sem skapast hafa á sambýlistíma hjóna, skiptist til helminga við skilnað, án samþykkis beggja aðila.

Í drögum að ályktun um iðnaðarmál segir, að vegna þenslu sé æskilegt að hægja á ferðinni í virkjunarmálum og nauðsynlegt að klára rammaáætlun um virkjunarkosti sem fyrst. Ekki sé ástæða til að ríkisvaldið beiti sér fyrir frekari uppbyggingu stóriðju.

Þá segir, að löngu sé orðið tímabært að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það muni einnig auka möguleika á að sameina stofnanir ráðuneyta og auka hagkvæmni þeirra.

Í drögum að ályktun um réttarfars- og stjórnskipunarmál segir að eðlilegt sé að færa I. og II. kafli stjórnarskrárinnar til nútímalegra horfs, þar á meðal að skýrar verði kveðið á um inntak þingræðis, stöðu forseta lýðveldisins og myndun, eðli og valdheimildir ríkisstjórnar. Jafnframt verði hugað að almennri heimild í stjórnarskrá til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál og að breytingar á stjórnarskránni verði bornar undir atkvæði þjóðarinnar. Þá væri eðlilegt að endurskoða ákvæði V. kafla stjórnarskrárinnar um dómstóla.

Í drögum að ályktun um umhverfismál og auðlindanýtingu segir, að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga. Ríkisvaldið hafi ekki öðru hlutverki að gegna á þessu sviði en því, að fara með fullveldisrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum, þ.á m. að setja skorður við nýtingu og afnotum í því augnamiði að tryggja að auðlindir Íslands verði til staðar fyrir komandi kynslóðir.

Þá er lagt til að stefnt verði að því að færa eignarhald opinberra aðila að orkufyrirtækjunum yfir til einkaaðila, þó þannig að gætt sé vandlega að samkeppnis- og jafnræðissjónarmiðum.

Drög að ályktunum landsfundar Sjálfstæðisflokks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert