Samfylkingin vill stórátak í samgöngumálum

Landsfundur Samfylkingarinnar hefst í Egilshöll á morgun.
Landsfundur Samfylkingarinnar hefst í Egilshöll á morgun.

Í drögum að ályktunum, sem liggja fyrir landsfundi Samfylkingarinnar um helgina, er m.a. lagt til að ráðist verði í stórátak í samgöngumálum í þeim tilgangi að stytta vegalengdir, t.d. með jarðgöngum. Þá er lagt til að skilgreind verði þau störf á vegum ríkisins sem séu óháð staðsetningu með það í huga að gera íbúum hvar sem er á landinu mögulegt að sinna þeim. Stefnt verði að því að á næsta kjörtímabili verði 1200 slík störf laus til umsóknar.

Þá vill flokkurinn að ráðist verði í stórátak við uppbyggingu fjölbreytilegra búsetuúrræða fyrir eldri borgara og heimahjúkrun verði til muna.

Í skattamálum vill flokkurinn m.a. efna til náins samstarfs milli ríkisins, helstu aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála sem myndað geti þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum. Lagt er til að skattar á lífeyrissjóðsgreiðslum verði lækkaðir úr 35,72% í 10%, stimpilgjöld af lánum vegna húsnæðiskaupa verði afnumin, sem og vörugjöld og tollar af matvælum. Þá verði virðisaukaskattur af lyfjum lækkaður úr 24,5% í 7% og tekið verði upp gagnsærra og réttlátara skattkerfi þar sem „grænir skattar” fá aukið vægi.

Í atvinnumálum vill Samfylkingin hefja áratug hátækninnar með samræmdum aðgerðum í þágu þekkingariðnaðarins og m.a. fjórfalda framlag í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð á næstu 4 árum.

Í ályktunardrögum um náttúruvernd er lagt til að frekari stóriðjuframkvæmdum verði slegið á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Tryggð verði friðun Skjálfandafljóts, Jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.

Í heilbrigðismálum vill flokkurinn tryggja aðgengi allra landsmanna að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og koma í veg fyrir tvöfalt kerfi í heilbrigðismálum þar sem hægt sé að kaupa sig fram fyrir röðina. Þá verði lögð stóraukin áhersla á forvarnir í heilbrigðiskerfinu á öllum sviðum, hvatt með ýmsum hætti til heilbrigðari lífshátta og samið við þá aðila í heilbrigðisstétt, sem er ósamið við, svo sem tannlækna, sálfræðinga og hjartalækna.

Í skólamálum er m.a. lagt til, að dregið verði úr aðgreiningu á milli skólastiga og tryggja að hver nemandi fari á þeim hraða sem honum hentar í gegnum skólakerfið. Boðið verði upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum í því skyni að auka jafnrétti til náms og teknar upp viðræður við sveitarfélögin um að þau taki yfir rekstur framhaldsskólastigsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert