"Klæðskerasniðið fyrir gömlu flokkana"

Baráttusamtök aldraðra og öryrkja eru hætt við að bjóða sig fram fyrir alþingiskosningar, sem fara fram eftir rúma viku. Þetta staðfesti María Óskarsdóttir, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. María situr í efsta sæti framboðslista samtakanna í Norðausturkjördæmi en Baráttusamtökin skiluðu aðeins lista til yfirkjörstjórnar í því kjördæmi í tæka tíð. Hún segir meginástæðuna fyrir því að hætt er við framboðið vera fjárskort.

Arndís Óskarsdóttir, formaður Baráttusamtaka aldraðra og öryrkja, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að það sé mun meira en vonbrigði að samtökin hafi ekki getað boðið fram á landsvísu, listar hafi verið fullmannaðir og margir meðmælendur hafi stutt framboð samtakanna.

Hún telur að gróflega hafi verið brotið á samtökunum, meðal annars af fulltrúum yfirkjörstjórnar sem að hennar sögn gáfu ekki forsvarsmönnum Baráttusamtakanna allar þær upplýsingar sem nauðsynlegt væri að fá, þrátt fyrir beiðni þar að lútandi.

„Mér finnst líka ansi einkennilegt að yfirkjörstjórn sé öll skipuð sjálfstæðismönnum" segir Arndís sem segir að það væri engu líkara en að fyrirfram hafi verið ákveðið að gera baráttusamtökunum lífið leitt. Þar hafi fjölmiðlar líka spilað stórt hlutverk og segir Arndís suma fjölmiðla varla hafa gefið Baráttusamtökunum neitt vægi í umfjöllun sinni og nefnir þar Morgunblaðið sérstaklega.

Ekki búin að gefa upp alla von um framboð
Hún segir líka að frumvarp sem samþykkt var á Alþingi um fjárframlög til stjórnmálaflokka sé afar varhugavert og vegi að lýðræðinu í landinu. Frumvarpið komi niður á nýjum framboðum líkt og Baráttusamtökunum sem hafi ekki úr neinum fjármunum að moða. „Þetta er allt klæðskerasniðið fyrir gömlu flokkana."

Aðspurð hvað taki nú við hjá Baráttusamtökum aldraðra og öryrkja segir Arndís að þau hafi ekki gefist upp. „Við skoðum alla möguleika til að geta boðið fram því við erum með allt sem þarf til að bjóða fram á landsvísu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert