Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk

mbl.is/Kristinn

Fylgi Framsóknarflokksins mælist 14,6% í þriðju raðkönnuninni, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Í könnun, sem birtist í gær, mældist fylgi flokksins 9,8%. Fylgi Frjálslynda flokksins eykst einnig frá því í gær og mælist nú 6,3% en fylgi annarra flokka minnkar.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist eins og áður sagði 14,6% í könnuninni, sem gerð var 7. og 8. maí. Samkvæmt því fengi flokkurinn 9 þingmenn, tapaði þremur frá síðustu kosningum.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 35,9% í könnuninni í dag, en mældist 38,4% í gær. Samkvæmt þessu fengi flokkurinn 24 þingmenn, bætti við sig tveimur.

Fylgi Samfylkingar mælist nú 25%, var 27,1% í könnun gærdagsins. Flokkurinn fengi samkvæmt þessu 17 þingmenn, tapaði þremur.

Vinstrihreyfingin-grænt framboð mælist nú með 14,5% fylgi en var með 16,5% í gær og fengi samkvæmt þessu 9 þingmenn, bætti við sig fjórum.

Fylgi Frjálslynda flokksins mælist í dag 6,6% en var 5,3% í könnun gærdagsins. Flokkurinn fengi samkvæmt þessu 4 þingmenn, sama og í síðustu kosningum.

Fylgi Íslandshreyfingarinnar mælist 3,3% í dag en var 2,9% í gær.

Síðasti þingmaður inn samkvæmt könnuninni er 17. þingmaður Samfylkingarinnar. Framsóknarflokkur og VG þyrftu að bæta mjög litlu við sig til að 10. maður annars hvors listans myndi fella 17. mann Samfylkingarinnar. Vikmörk í könnuninni eru frá 1,5-3,9%.

Niðurstöðurnar eru úr símakönnun og var úrtakið tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Í því voru 1048 manns 18 ára og eldri. Nettósvarhlutfall var 64,1%. 86,6% nefndu flokk, 5% neituðu að svara, 3,8% sögðust óákveðnir og 4,6% sögðust ætla að skila auðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert