Steingrímur: forsætisráðherra hreytir ónotum í kjósendur

Flokksformenn ræða nú málin í sjónvarpssal.
Flokksformenn ræða nú málin í sjónvarpssal. mbl.is/Eyþór

„Við verðum vör við mikinn meðbyr...við höfum verið að hækka okkur þegar til lengri tíma er litið þó að þessi skoðanakönnun sé allsendis óviðunandi fyrir okkur,” sagði Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins í kappræðum flokksformannanna í Sjónvarpinu og vísaði þar til síðustu könnunar Capacent Gallup þar sem Framsóknarflokkurinn mælist með 10,3% og 6 þingmenn kjörna.

„Ég er ekki hress með að það gæti stefnt í vinstristjórn á grundvelli þessara úrslita, þrír eða fjórir flokkar saman í vinstristjórn og ég vara eindregið við því,” sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins um skoðanakönnunina.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna var ekki ánægður með það svar og sakaði forsætisráðherra um að hreyta ónotum í kjósendur og segja að þeir hafi verra af „ef þeir kjósa eins og hugur þeirra greinilega stefnir til,” sagði Steingrímur og taldi þetta ólýðræðislega umræðu.

Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins sagði að hann teldi að meðaltalsaukning fylgisins miðað við allar spár hefði hingað til verið um 1,8 til 2% umfram það sem spárnar gefa til kynna. „Svo við teljum að við séum með kjörfylgið eins og við vorum með það og rúmlega það," sagði Guðjón Arnar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar sagði hins vegar að „sinum augum liti hver á silfrið, Geir segir að það sé veruleg hætta á því að hér verði vinstri stjórn ég segi aftur á móti að það sé veruleg hætta á því ef áfram heldur sem horfir að þessi ríkisstjórn sitji hér áfram," sagði Ingibjörg Sólrún.

Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar sagði: „Ef við komum mönnum á þing þá fellur stjórnin örugglega og líka stóriðjustjórnin."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert