DHL segist áskilja sér rétt til að opna pakka

Flutningafyrirtækið DHL hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna misbrests við afgreiðslu utankjörfundaratkvæða á leið til Íslands en umslög, með atkvæðunum í, voru opnuð áður en þau komust á áfangastað og því voru þau úrskurðuð ógild. Segist DHL líta málið alvarlegum augum en það áskilji sér rétt til þess að opna pakka, sé þess talin þörf.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Á sama tíma og alþjóðlega flutningafyrirtækið DHL harmar að misbrestur hafi orðið á afgreiðslu utankjörfundaratkvæða í nýafstöðnum Alþingiskosningum, sem send voru með fyrirtækinu, óskar DHL eftir að koma eftirfarandi á framfæri:

    Svo tryggja megi öryggi sendinga DHL áskilur fyrirtækið sér rétt til þess að opna pakka, sé þess talin þörf. Sé pökkum eða umslögum lokað í viðurvist starfsmanna DHL eiga þeir ekki að vera opnaðir aftur, heldur skulu þeir sérstaklega merktir að öryggiskröfum DHL hafi verið fullnægt. Í þessu tilviki virðist sem þetta ferli hafi misfarist. Starfsmenn sem sinna öryggiseftirliti fyrir fyrirtækið í Boston ákváðu að innihald umslagsins skyldi kannað nánar. Hlutaðeigandi aðilum hefur verið gerð grein fyrir málsatvikum og DHL mun í framhaldinu fara ítarlega yfir verklagsreglur varðandi sendingar sem þessar.

    Rétt er að taka fram að DHL lítur þetta mál mjög alvarlegum augum. Eins er rétt að taka fram að tugir þúsunda utankjörfundaratkvæða eru send með DHL á ári hverju og komast ábyggilega í hendur réttra aðila.

    Svipað tilvik kom upp í Alþingiskosningunum 2003. Þá benti fyrirtækið á að DHL ætti í samstarfi við stjórnvöld víða um heim vegna utankjörstaðakosninga. Í slíkum tilvikum geta borgarar umræddra ríkja nálgast kjörgögn á skrifstofum DHL og fyrirtækið tryggir að kjörseðlarnir komist til kjörstjórna í tæka tíð. Íslenskum stjórnvöldum hefur staðið til boða að ganga til slíks samstarfs frá árinu 1999.

    Svo tryggja megi að svona nokkuð endurtaki sig ekki mun DHL skrifa bæði félagsmálaráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu bréf. Þar verður óskað eftir samstarfi og ráðgjöf frá stjórnvöldum, svo tryggja megi að öll utankjörfundaratkvæði berist skammlaust í kosningum framtíðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert