Hreinn: Dómur kjósenda um verk Björns liggur fyrir

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs Group, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar yfirlýsingar, sem Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sendi frá sér í dag. Segir Hreinn, að hvort sem Birni líki það betur eða verr þá séu störf hans lögð í dóm kjósenda og sá dómur liggi nú fyrir.

Yfirlýsing Hreins er eftirfarandi:

    Með yfirlýsingu til fjölmiðla hefur Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, tjáð sig um auglýsingu Jóhannesar Jónssonar kaupmanns í Bónus í dagblöðum föstudaginn 11. maí sl. Þar hvatti Jóhannes kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður til að strika yfir nafn Björns á kjörseðli við alþingiskosningarnar. Í yfirlýsingu Björns er spurt hvort ekki sé tímabært að staldra við og líta á alvöru málsins. Undir það skal tekið en ekki með þeim hætti sem Björn leggur til. Í yfirlýsingu sinni reynir ráðherrann að skapa sér samúð með ódýrum hætti, þ.e.a.s. með því að láta að því liggja að Jóhannes hafi í krafti auðs síns haft áhrif á kjósendur Sjálfstæðisflokksins líkt og hann geti beygt næstum 20% þeirra undir vilja sinn. Málið er ekki svona einfalt. Afstaða Björns lýsir hroka hans í garð lýðræðislegra ákvarðana sem teknar eru af einstaklingum þegar þeir nýta ein mikilvægustu mannréttindi sín, kosningaréttinn. Þessir einstaklingar voru einir í kjörklefanum og enginn veit hverjir þeir eru. Þeir þurfa ekki að standa reikningsskil gerða sinna við einn eða neinn og svo mikið er víst að Jóhannes Jónsson stóð ekki yfir þeim þegar þeir gengu til kosninga.

    Eftir því sem ég kemst næst fann Jóhannes sig knúinn til að setja fram afstöðu sína með afgerandi hætti þegar spurðist í fjölmiðlum skömmu fyrir kjördag að Björn hygðist fresta skipun í embætti ríkissaksóknara fram yfir kosningar, öndvert við það sem áður hafði komið fram. Taldi Jóhannes það benda eindregið til þess að það væri rétt sem haldið hafði verið fram í fjölmiðlum að ráðherrann hygðist skipa Jón H. B. Snorrason í embættið. Jóhannes er ekki einn um þessa skoðun. Feluleikur ráðherrans hefur reynst honum dýrkeyptur. Jóhannes hefur fullkomna heimild til að setja afstöðu sína fram á þann hátt sem hann gerði og er svo sannarlega á færi fleiri en aðeins þeirra sem teljast til „auðmanna”. Það sem hér skiptir máli er frelsi manna til að tjá sig og hvort Jóhannes gerir það með auglýsingu, grein eða fréttatilkynningu er hans mál.

    Björn er þekktur fyrir brellur sínar. Hann kýs að leggja málið þannig upp að meira en 80% kjósenda flokksins hafi haft áskorun Jóhannesar Jónssonar að engu. Alvara málsins fyrir Björn er hins vegar sú að tæp 20% af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins í kjördæmi hans hafa í leynilegum kosningum ákveðið að strika nafn hans út af lista. Með brellu sinni reynir hann að draga athygli frá þessum kjarna málsins. Að bera kjósendum á brýn að þeir séu einhverjar undirlægjur eða handbendi „auðmannsins” er móðgun og lítilsvirðing í þeirra garð. Birni væri rétt að hafa hugfast að yfirstrikanir þessar koma í kjölfar prófkjörs þar sem hann varð undir í baráttu um annað sætið við Guðlaug Þór Þórðarson. Kjósendur í Reykjavík höfðu áður hafnað Birni sem borgarstjóra þegar sá möguleiki gafst þeim fyrir nokkrum árum. Birni hefur þannig áður verið hafnað af kjósendum án þess að Jóhannes Jónsson hafi komið þar nærri. Hér beitir Björn þeirri brellu að kenna öðrum um í stað þess að líta í eigin barm.

    Björn beitir líka annarri brellu. Hann samsamar sig við alla sjálfstæðismenn og heldur því fram að Jóhannes og aðrir „Baugsmenn“ hafi vænt þá um pólitískt samsæri gegn sér. Hið rétta er að Jóhannes hefur talið að öfl innan Sjálfstæðisflokksins hafi tekið þátt í aðför að sér og fjölskyldu sinni. Jóhannes á því ekkert sökótt við aðra í þeim flokki, sem hann segist reyndar tilheyra sjálfur.

    Í yfirlýsingu sinni kemur Björn Bjarnason enn og aftur upp um hug sinn í Baugsmálinu svokallaða. Eftirfarandi kemur fram: „Fyrir nokkrum mánuðum setti ég síðan Rúnar Guðjónsson, sýslumann í Reykjavík, ríkislögreglustjóra í skattsvikamáli tengdu Baugsmönnum, en það er til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild.“ Ég undirstrika orðaval Björns. Ekki verður betur séð en að ráðherrann hafi komist að þeirri niðurstöðu að um „skattsvik“ hafi verið að ræða, annars hefði hann einfaldlega sagt að skattamál tengt Baugi væri til rannsóknar. Enn og aftur kýs Björn að nota orðalag sem felur í sér huglæga afstöðu hans til Jóhannesar og annarrra „Baugsmanna“.

    Varðandi efni auglýsingar Jóhannesar er þetta að segja: Hann telur sig hafa verið órétti beittan af lögregluyfirvöldum og ákæruvaldi. Björn Bjarnason ber pólitíska ábyrgð á skipan manna sem stjórna þeim málaflokki. Hvort sem Birni líkar það betur eða verr þá eru störf hans lögð í dóm kjósenda og sá dómur liggur nú fyrir. Jóhannes hefur m.a. haldið því fram að jafnræðisregla hafi verið brotin á sér og að hann hafi að ósekju mátt sitja á sakamannabekk árum saman. Í auglýsingunni segir hann að það keyri um þverbak ef ráðherann hyggst verðlauna einn þessara manna með því að fá honum æðstu metorð, þ.e.a.s. embætti ríkissaksóknara. Hvað svo sem segja má um þá afstöðu hans er hitt fullkomlega ljóst að Jóhannes hefur heimild til að opinbera skoðun sína en þegar hún kom fram svaraði Björn henni í engu. Sagði aðeins eitthvað á þá leið að hún dæmdi sig sjálf. Það hefur hún svo sannarlega gert. Hvort sem það er áskorun Jóhannesar til kjósenda Sjálfstæðisflokksins eða eitthvað annað sem liggur að baki því að tæplega 20% kjósenda strika nafn Björns út af lista flokksins þá hlýtur sú ákvörðun þessara einstaklinga að vera verulegt áhyggjuefni fyrir ráðherrann. Aðrir ráðamenn í Sjálfstæðisflokknum hljóta að taka mið af þeim skilaboðum sem þessir kjósendur flokksins hafa sent þeim. Þetta er alvara málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert