12 ára ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á enda

Annað ráðuneyti Davíðs Oddssonar árið 1999.
Annað ráðuneyti Davíðs Oddssonar árið 1999.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem verið hefur við völd undanfarin 12 ár, var mynduð síðari hluta apríl árið 1995. Stjórnin tók við af stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem setið hafði í 4 ár en í þingkosningum þetta ár fengu stjórnarflokkarnir samtals 32 þingmenn af 63 og það þótti ekki nægilega traustur meirihluti á Alþingi. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu hins vegar 40 þingmenn saman, Sjálfstæðisflokkur 25 og Framsóknarflokkur 15.

Framsóknarflokkur við þeim ráðuneytum, sem Alþýðuflokkur hafði haft með höndum auk landbúnaðarráðuneytisins. Þegar stjórnin var fyrst mynduð var Davíð Oddsson, forsætisráðherra, en auk hans voru ráðherrar Sjálfstæðisflokks þeir Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra, Björn Bjarnason menntamálaráðherra, Halldór Blöndal samgönguráðherra og Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra. Geir H. Haarde tók við embætti fjármálaráðherra af Friðrik árið 1998. Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra en aðrir ráðherrar Framsóknarflokksins voru Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Guðmundur Bjarnason, landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra, Páll Pétursson, félagsmálaráðherra og Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Ríkisstjórnin hélt velli í þingkosningum árið 1999, Sjálfstæðisflokkur fékk þá 26 þingsæti en Framsóknarflokkur 12. Gerðar voru talsverðar breytingar á skipan ríkisstjórnarinnar þegar samstarfið var endurnýjað. Flokkarnir héldu þó sömu ráðuneytum en ráðherrum var fjölgað úr tíu í tólf. Guðmundur Bjarnason og Þorsteinn Pálsson hættu þingmennsku og í stað þeirra komu inn í ríkisstjórnina Guðni Ágústsson, sem varð landbúnaðarráðherra, Siv Friðleifsdóttir varð umhverfisráðherra, Árni M. Mathiesen varð sjávarútvegsráðherra og Sólveig Pétursdóttir varð dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá tók Sturla Böðvarsson við samgönguráðuneytinu af Halldóri Blöndal sem varð forseti Alþingis. Einnig var boðað, að Valgerður Sverrisdóttir tæki síðar á kjörtímabilinu við félagsmálaráðuneytinu af Páli Péturssyni en svo fór raunar, að Valgerður tók við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra af Finni Ingólfssyni í árslok 1999. Þá hætti Ingibjörg Pálmadóttir sem heilbrigðisráðherra árið 2001 og Jón Kristjánsson tók við og Björn Bjarnason hætti sem menntamálaráðherra árið 2002 og Tómas Ingi Olrich tók við því.

Árið 2003 hélt ríkisstjórnin enn velli í kosningum þótt þingmönnum stjórnarflokkanna fækkaði en Sjálfstæðisflokkur fékk þá 22 þingmenn og Framsóknarflokkur 12. Samstarfið var endurnýjað en nokkur breyting varð á ráðherraembættum. Tveir nýir ráðherrar komu inn í stjórnina, Björn Bjarnason varð dómsmálaráðherra í stað Sólveigar Pétursdóttur og Árni Magnússon varð félagsmálaráðherra í stað Páls Péturssonar. Þá var boðað, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir myndi taka við menntamálaráðuneytinu af Tómasi Inga Olrich og Sigríður Anna Þórðardóttir myndi taka við umhverfisráðuneytinu haustið 2004 en þá myndi Halldór Ásgrímsson jafnframt taka við embætti forsætisráðherra. Það gekk eftir og höfðu þeir Halldór og Davíð sætaskipti en Siv Friðleifsdóttir fór út úr ríkisstjórninni.

Miklar mannabreytingar áttu þó enn eftir að verða í ríkisstjórninni því Davíð Oddsson hætti sem ráðherra í september 2005 og Geir H. Haarde tók við utanríkisráðherraembættinu, Árni M. Mathiesen varð fjármálaráðherra og Einar K. Guðfinnsson varð sjávarútvegsráðherra. Í mars 2006 sagði Árni Magnússon af sér embætti og Jón Kristjánsson varð félagsmálaráðherra en Siv Friðleifsdóttir kom á ný inn í ríkisstjórnina, nú sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Um mitt síðasta ár varð á ný mikil uppstokkun þegar Halldór Ásgrímsson ákvað að segja af sér embætti forsætisráðherra. Geir H. Haarde tók við því embætti, Valgerður Sverrisdóttir varð utanríkisráðherra, Jón Sigurðsson kom inn í stjórnina og varð iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Framsóknarflokkurinn tók aftur við umhverfisráðuneytinu og þar settist Jónína Bjartmarz í stól ráðherra en Sigríður Anna Þórðardóttir fór úr stjórninni. Þá tók Magnús Stefánsson við embætti félagsmálaráðherra af Jóni Kristjánssyni, sem sagði af sér ráðherraembætti. Þannig hefur stjórnin verið skipuð fram á þennan dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert