Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde ræða við fréttamenn …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde ræða við fréttamenn nú síðdegis. mbl.is/Ómar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að ljóst hafi legið fyrir, að Vinstrihreyfingunni-grænu framboði hugnaðist ekki að reyna að mynda vinstristjórn með Framsóknarflokknum. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði að samstarf flokksins og Sjálfstæðisflokks hefði endað á gríðarlegum trúnaðarbresti.

Ingibjörg Sólrún sagði, að menn hefðu undanfarna daga verið að þreifa hver á öðrum og niðurstaða fólks í baklandi Samfylkingarinnar hefði verið sú, að ekki væri vilji til þess, sérstaklega af hálfu VG, að mynda þriggja flokka vinstristjórn. Þá væri ljóst af viðræðuþáttum í fjölmiðlum að afskaplega stirt hefði verið milli Framsóknarflokks og VG.

Ingibjörg Sólrún sagðist hafa heyrt það í fyrsta skipti frá Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, í fjölmiðlum nú síðdegis að hann teldi að Samfylkingin ætti að fá umboð til að mynda vinstristjórn. VG hefði talið mikil tormerki að mynda stjórn með Framsóknarflokki og hún virti þá afstöðu. Enginn þyrfti hins vegar að efast um að Samfylkingin hefði viljað reyna slíkan kost væri hann fyrir hendi en það væri bara of seint nú.

Ingibjörg Sólrún sagði, að ríkisstjórnin hefði haldið velli og það hefði síðan verið ákvörðun stjórnarflokkanna að slíta samstarfinu og ákvörðun Sjálfstæðisflokks að óska eftir viðræðum við Samfylkingu. „Við förum ekki út í slíkt af einhverjum leikaraskap. Það verður að vera traust og trúnaður á milli fólk og það verður að vera alvara á bak við það sem við segjum og gerum og það hefur verið alvara á bak við það, sem ég hef sagt allan tímann. En ég ætlaði ekki að sitja af mér þetta tækifæri til að Samfylkingin gæti haft mótandi áhrif á íslenskt samfélag og að jafnaðarstefnan gæti verið í öndvegi í ríkisstjórn," sagði hún.

Ingibjörg Sólrún sagði að Samfylkingin myndi leggja inn í ríkisstjórn þau mál sem hún hefði lagt áherslu á í kosningabaráttu. „Ég segi að þetta á að vera frjálslynd umbótastjórn en það má líka segja að þetta sé stjórn hina sögulegu sátta," sagði hún.

Sjálf Njála bliknar
Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósinu að VG hefði ekki fyrirfram hafnað neinum kostum varðandi hugsanlegt stjórnarsamstarf. Flokkurinn hefði farið eftir leikreglum en ljóst væri að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hefðu verið að ræða saman undanfarna daga.

Guðni Ágústsson sagði, að sér sýndist sjálf Njála blikna í þessum hildarleik sem verið hefði undanfarna daga. Steingrími hefði trúað því á brúsapallinum, að beðið væri eftir sér, Ögmundur hefði beðið um að fá að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þá sagði Guðni, að forsætisráðherra hefði beðið Framsóknarflokkinn að bíða föstudags en nú hefði Ingibjörg Sólrún upplýst, að í gær hafi þau Geir H. Haarde rætt saman.

„Það staðfestir það sem við vissum og fundum, Jón Sigurðsson fann aldrei hönd, það var aldrei gengið frá neinu en frjálshyggjumenn Sjálfstæðisflokksins og kannski varaformaður voru að semja við Samfylkinguna. Svo sérðu leikritið, þegar við erum af önglinum, sjáum að þetta er bara svikamylla, þá er það á einum hálftíma sem foringi Samfylkingarinnar er tilbúinn. Forsætisráðherra kveður ekki upp úr með þetta fyrr en hann er klár á því að hann geti gengið til forsetans á Bessastöðum og sagt honum að hann hafi þetta allt í hendi sinni og fái umboðið. Nú hefur hann handsalað því við Ingibjörgu Sólrúnu þannig að þetta er eitt gríðarlegasta leikrit sem ég hef séð," sagði Guðni.

Hann gagnrýndi einnig kosningablað DV, sem dreift var ókeypis í vikunni fyrir kosningarnar. Sagði Guðni að blaðið hefði verið runnið undir rifjum Baugs sem vildi koma á stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og að blaðið hefði haft þau áhrif að fylgi Framsóknarflokksins, sem þá var byrjað að aukast, dvínaði aftur.

Hann sagðist telja að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefði fæðst fyrir kosningar. Allt hefði verið að gerast í bakherbergjunum „og það er auðvitað gríðarlegur trúnaðarbrestur sem þetta ágæta og góða samstarf við Sjálfstæðisflokkinn endar á," sagði Guðni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert