Meginmarkmið stjórnmála að skapa samfélag þar sem fólki líður vel

Geir H. Haarde flytur stefnuræðu sína í kvöld.
Geir H. Haarde flytur stefnuræðu sína í kvöld. mbl.is/Brynjar Gauti

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld. Geir fór í ræðunni yfir stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og sagði stjórnarflokkana hafa sett sér afar metnaðarfull markmið á mörgum sviðum, sem öll ættu það sameiginlegt að stuðla að aukinni velsæld íslensku þjóðarinnar.

„Þetta er auðvitað meginmarkmið stjórnmálanna, að bæta kjör almennings og skapa hér fjölskylduvænt samfélag þar sem fólki líður vel; að skapa umhverfisvænt samfélag sem við getum verið stolt af og skapa hér samkeppnishæft og aðlaðandi umhverfi fyrir okkar kröftuga atvinnulíf. Með öðrum orðum, íslenskt samfélag sem verður áfram í fremstu röð þjóða heims á hvaða lífskjaramælikvarða sem litið er. Ég horfi björtum augum til þess kjörtímabils sem nú er að hefjast og tel það fela í sér mikil tækifæri til þess að gera gott samfélag enn betra," sagði Geir.

Hann sagði, að hin nýja ríkisstjórn byggðist á samstarfi tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins. „Þessir flokkar hafa einsett sér að mynda frjálslynda umbótastjórn um kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu, bættan hag heimilanna og aukna samkeppnishæfni atvinnulífsins. Með þessi meginmarkmið að leiðarljósi stefnir hin nýja ríkisstjórn á vit nýrra tíma á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið á undanförnum árum."

Stefnuræða forsætisráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert