Íslendingar nota iTunes-verslunina

Fjölmargir Íslendingar nýta sér iTunes-vefverslunina til að kaupa sér lög og kvikmyndir fyrir mun lægra verð en tíðkast hérlendis. Þetta gera þeir þrátt fyrir að ekki sé boðið upp á þjónustuna á Íslandi. iTunes er vefverslun Apple-fyrirtækisins í Bandaríkjunum og er starfrækt þar og í nokkrum öðrum löndum, þó ekki á Íslandi.

Íslenskir notendur hafa séð við þessum takmörkunum með því að notast við sjálfstæða sölumenn á netinu, t.d. ituneshop.net, til að kaupa fyrirframgreidd gjafakort sem ætluð eru til notkunar í Bandaríkjunum. Þá gefa þeir upp heimilisfang þar í landi og fá kóða sendan í tölvupósti, en með honum öðlast þeir aðgang að versluninni eins og þeir væru vestra.

Í könnun sem gerð var á vefsíðunni maclantic.com, sem er vefsíða áhugamanna um Apple-vörur hérlendis, sögðust rúmlega 300 manns hafa aðgang að versluninni. Á spjallborði síðunnar er að finna umræður um verslunina, sem virðist eiga sér breiðan hóp viðskiptavina.

Ljóst er að íslenskir notendur geta sparað verulegan pening á að kaupa sér aðgang að iTunes, en síðan býður notendum upp á að kaupa lög fyrir tæplega 80 kr., leigja kvikmynd fyrir rúmlega 300 kr. og kaupa myndina fyrir um 1.200 kr.

„Þetta er ólöglegt á Íslandi,“ segir Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri Smáís. „Við höfum hingað til ekki farið í málaferli út af iTunes því við sjáum að fólk er að reyna að fara löglegu leiðina.“

Eiríkur Tómasson lagaprófessor tekur í sama streng með lögmætið, „ef þetta er gert án heimildar rétthafanna eða þeirra sem setja [efnið] á síðuna, þá er þetta ólöglegt“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert