Ingibjörg Sólrún komin heim

Ingibjörg Sólrún ræðir við fréttamenn í Leifsstöð.
Ingibjörg Sólrún ræðir við fréttamenn í Leifsstöð. mbl.is/Kristinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir að þau Geir H. Haade, forsætisráðherra, verði nú að vinna í sameiningu úr þeirri stöðu, sem upp er komin í stjórnmálum eftir tíðindi dagsins.

Ingibjörg Sólrún kom nú síðdegis til Íslands frá Svíþjóð þar sem hún gekkst undir aðgerð vegna heilaæxlis. Hún ræddi við fréttamenn í Leifsstöð og sagðist í morgun hafa fengið þær bestu fréttir af sínum veikindum sem hún gat fengið þegar ljóst varð, að heilaæxlið reyndist allt vera góðkynja. Á sama tíma hefði hún fengið mikil ótíðindi af forsætisráðherra og hans veikindum, sem hann þyrfti nú að takast á við.

„Úr þessari stöðu þurfum við tvö  að vinna  í sameiningu. Við munum ræða saman í ljósi þessara breytinga, sem þetta hlýtur að hafa á samstarf okkar og hvernig við skipuleggjum tíma okkar á næstunni," sagði Ingibjörg Sólrún og bætti við að vonandi fengju þau svigrúm til þess.

Fram kom á miðstjórnarfundi Sjálfstæðisflokksins í dag að flokkurinn vill að boðað verði til kosninga 9. maí.  Ingibjörg sagðist telja, að sá tími geti vel komið til álita eins og hver annar og maí geti verið ágætur tími til að kjósa. Hins vegar ætti  alveg eftir að fara yfir það og ræða það milli stjórnarflokkanna og væntanlega við forystumenn annarra flokka, hvaða tímasetning sé best í því efni.

Ingibjörg Sólrún sagði að það væri tiltölulega einfalt verkefni að boða til kosninga. Flóknara yrði að takast á við þau brýnu úrlausnarefni, sem nú blasi við. Sagði hún að stjórnarflokkarnir verði að sjá til þess að það verði gert og Samfylkingin muni ekki hlaupa frá því verki, að sjá til þess að það verði stjórn í landinu fram að kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert