Fimmti ráðherrann sem segir af sér

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson Brynjar Gauti

Björgvin G. Sigurðsson er fimmti íslenski ráðherrann eftir fullveldistökuna 1918, sem segir af sér vegna deila um verk hans. Hinir eru Magnús Jónsson, Magnús Guðmundsson, Albert Guðmundsson og Guðmundur Árni Stefánsson.  

Afsagnir íslenskra ráðherra voru rifjaðar upp í grein í Morgunblaðinu á dögunum.

Magnús Jónsson, ráðherra í ríkisstjórn Sigurðar Eggerz, sagði af sér árið 1923 vegna ásakana um spillingu í embætti. 

Sjálfstæðismaðurinn Magnús Guðmundsson dómsmálaráðherra var dæmdur 1932 sekur um að hafa stuðlað að ólöglegri eignatilfærslu til heildsala sem varð svo gjaldþrota. Nokkrum vikum síðar sýknaði hæstiréttur Magnús sem tók þá aftur við embættinu. Dagblaðið Tíminn fór hamförum, sagði að um „stórkostlegt réttarhneyksli“ væri að ræða.

Mikil umbrot voru í Sjálfstæðisflokknum á níunda áratugnum og einn af helstu áhrifamönnum hans var Albert Guðmundsson, heildsali og þar áður einn af þekktustu knattspyrnumönnum Evrópu. Hann varð fjármálaráðherra árið 1983 og síðar iðnaðarráðherra.

Í ljós kom að Albert hafði vantalið á skattaskýrslu tekjur sínar 1983-1985, þ. á m. greiðslur frá skipafélaginu Hafskipi, alls um 250 þúsund krónur. Albert var á sama tíma ráðherra fjármála og því yfir skattamálum. Leiðtoga Sjálfstæðismanna, Þorsteini Pálssyni fjármálaráðherra, leist vafalaust ekki vel á að fara í kosningar um sumarið með illa lyktandi mál af þessu tagi á bakinu og fékk Albert til að segja af sér 24. mars.

Guðmundur Árni Stefánsson félags- og tryggingamálaráðherra var í hópi yngstu leiðtoga Alþýðuflokksins og oft rætt um hann sem arftaka Jóns Baldvins Hannibalssonar, þáverandi utanríkisráðherra og leiðtoga flokksins. En deilt var á hann fyrir að hygla vinum og frændum þegar kom að embættisveitingum og ýmsum sporslum. Mest gekk á út af starfslokum Björns Önundarsonar tryggingayfirlæknis árið 1993. Hann fékk greiddar þrjár milljónir króna vegna uppgjörs á áunnu námsleyfi gegn því að hann segði upp.

„Ég minnist þess ekki að nokkur hafi beðið um afsögn ráðherra af þessum sökum,“ sagði Guðmundur. En kannanir sýndu að kjósendur voru á öðru máli og Jón Baldvin sagði málið skaða flokkinn. Guðmundur Árni sagði af sér 11. nóvember sama ár og var þá talað um fordæmi sem oft yrði vitnað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert