Björn: Forsetinn gekk á svig við hlutleysi sitt

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra. mbl.is/Frikki

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á vef sínum að það eigi sér enga hliðstæðu að forseti Íslands gangi á svig við hlutleysi sitt líkt og  Ólafur Ragnar Grímsson gerði í dag er hann nefndi  fjögur áhersluatriði, sem hann ætlaði að setja stjórnmálamönnum fyrir við myndun ríkisstjórnar.

„Það á sér enga hliðstæðu, að forseti Íslands gangi á svig við hlutleysi sitt og óhlutdrægni á þennan hátt og reyni að knýja fram einkasjónarmið sín við stjórnarmyndun. Þá lét Ólafur Ragnar einnig orð falla á þann veg, að forsætisráðherra í starfsstjórn, það er stjórn, sem starfaði þar til ný stjórn í umboði alþingis kæmi saman, gæti ekki gert tillögu um þingrof.

Þessi yfirlýsing forseta stenst ekki gagnrýni og gengur þvert á umboð ráðherra í starfsstjórn, sem er hið sama og endranær, þótt þess sé ekki að vænta, að þeir leggi á ráðin um framtíðarstefnu, sem byggist á pólitísku samkomulagi," að því er fram kemur á vef Björns Bjarnasonar.

Vefur Björns Bjarnasonar  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert