Brýnt að skapa samfélagslegan frið

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagðist myndu hafa tilteknar áherslur að leiðarljósi í viðræðum sínum við forustumenn stjórnmálaflokkanna og ákvörðunum sínum á næstunni. Sagði Ólafur Ragnar að brýnast væri að skapa á ný samfélagslega sátt í íslensku samfélagi.

„Þetta eru ekki venjubundnir tímar," sagði Ólafur Ragnar m.a. við blaðamenn á Bessastöðum. Hann sagði að hann myndi breyta út af venju með því að lýsa hugmyndum sínum um hvað eigi að nást fram í myndun nýrrar stjórnar.

Ólafur Ragnar átti klukkustundarlangan fund með  Geir H. Haarde, forætisráðherra og sagðist hafa þar fallist á lausnarbeiðni Geirs og einnig Björgvins G. Sigurðssonar, fráfarandi viðskiptaráðherra, sem barst í gær. Hann hefði hins vegar beðið alla ráðherrana, þar með talið Björgvin, að sitja áfram þar til ný stjórn verður mynduð.

Ólafur Ragnar mun ræða við formenn annarra stjórnmálaflokka í  kvöld. Kemur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, til Bessastaða klukkan 18. Hann sagðist ekki telja koma til greina, að veita stjórnarmyndunarumboðið í kvöld. Nauðsynlegt væri að hann fengi tækifæri til að hlusta á sjónarmið forustumanna flokkanna, íhuga þau og hugsanlega ræða við þá aftur.

Ólafur Ragnar sagði, að hvað sem liði afstöðu manna til einstakra verka í síðustu ríkisstjórnar, gætu allir verið sammála um það, að engin ríkisstjórn hafi þurft að glíma á jafn skömmum tíma við jafn mörg og alvarleg verkefni og hún.

Forsetinn sagði mikilvægt að hafa í huga fjögur verkefni sem umfram allt þurfi að setja svip á þær ákvarðanir sem teknar verða á næstu dögum. Brýnasta verkefni væri, að skapa á ný samfélagslega sátt í íslensku þjóðfélagi þannig að þeir atburðir og átök, sem Íslendingar hafi orðið vitni að, lægi. 

Þá sagði hann, að ákvarðanir yrði að taka taka af ábyrgð, þjóðin þyrfti að fá að lýsa skoðunum sínum í alþingiskosningum og loks, að fundinn verði farvegur fyrir lýðræðisumræðu og hugsanlegar breytingar á stjórnarskrá, 

Ólafur Ragnar sagði, að þar sem forsætisráðherra hefði beðist lausnar væri enginn starfandi forsætisráðherra, sem gæti gert tillögu um þingrof, og því væri þingrofsvald hjá forseta Íslands.

Ólafur Ragnar nefndi eins og áður sagði fjögur atriði sem mikilvægt væri að hafa í huga og eiga að setja svip á það sem gert verður. Í fyrsta lagi það brýna verkefni að skapa á ný samfélagslega sátt í íslensku  þjóðfélagi þannig að þeir atburður og átök sem við höfum öll orðið vitni af að undanförnu lagist og íslenskt samfélag geti orðið að nýju það samfélag sem við kjósum og erum vön. Að þjóðin geti gengið til daglegra starfa á friðsaman og öruggan hátt. Segir Ólafur Ragnar það nauðsynlegt að skapa hér nauðsynlegan frið en hann telur það mikilvægast í því starfi sem fram undan er.

Í öðru lagi nefndi Ólafur Ragnar að haldið sé þannig á málum það þær ákvarðanir sem teknar eru séu teknar hafi hag þjóðarinnar, heimilanna í landinu fyrirtækja og atvinnulífs að leiðarljósi og þannig lagður grundvöllur að farsælli lausn eins fljótt og auðið er. 

Í þriðja lagi að þjóðin fái sem fyrst tækifæri til þess að endurnýja umboð nýs Alþingis og kjósa sér þá fulltrúa á löggjafarsamkomuna sem íslensk stjórnskipun kveður á um. 

Í fjórða lagi telur Ólafur Ragnar nauðsynlegt að skapaður sé farvegur fyrir þá umræðu sem við verðum mjög vör við í okkar þjóðfélagi þar sem fólk varpar fram hugmyndum og kröfum um nýja stjórnskipan, endurskoðun á stjórnarskrá, nýtt lýðveldi eins og sumir orða það. Eða þjóðfélagslegan sáttmála eins og forsetinn orðaði það í nýársávarpi sínu.  

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum …
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert