Þingflokksfundir hefjast

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins á fundi í dag
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins á fundi í dag mbl.is/Golli

Þingflokksfundir Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eru að hefjast í Alþingishúsinu og eru stjórnarþingmennirnir að týnast inn í húsið. Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir ljóst að niðurstaða verði að nást í stjórnarsamstarfið í dag.

Hann sagði í samtali við blaðamann mbl.is að Samfylkingin geri kröfu um að hlutirnir gangi betur fyrir sig en hingað til en neitaði að öðru leyti að tjá sig um stjórnarsamstarfið.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði við komuna á þingflokksfund Samfylkingarinnar að grundvallaratriðið væri að sama hreinsun ætti sér stað í Seðlabankanum og tilkynnt hafi verið um í Fjármálaeftirlitinu.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að nú ætti að leggja mat á stöðuna og næstu skref en vildi litlu svara um hvað það gæti í sér falið. „Miðað við þær yfirlýsingar sem hafa fallið um helgina finnst mér líklegt að þetta skýrist í dag,“ sagði Bjarni aðspurður um hvort málin yrðu kláruð í dag. Fengi Samfylkingin forsætisráðherraembættið væri það alger endurnýjun á stjórnarsamstarfinu sem spyrja mætti hvaða skynsemi væri í.

Björgvin G. Sigurðsson, fráfarandi viðskiptaráðherra, sagðist ekki hafa hugmynd um hvað myndi gerast í dag og þegar Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, var spurður hvað væri „í pottinum“ svaraði hann spekingslegur: Ég held að það sé ás.

Það ræðst væntanlega í dag hvort ríkisstjórnin heldur velli. Forystumenn flokkanna hittust í gær á heimili forsætisráðherra til að fara yfir stjórnarsamstarfið. Fátt stendur út af borðinu í viðræðum flokkanna, nema að Samfylkingin vill taka að sér „verkstjórnina“, en Sjálfstæðisflokkurinn er ekki reiðubúinn að gefa eftir forsætisráðuneytið.

Til stendur að hafa þingfund kl. 15 í dag. Á dagskrá eru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra og fjármálaráðherra á að mæla fyrir tveimur málum. Spurningin er hverjir verða ráðherrar þegar þar að kemur.
Þingflokksfundur Samfylkingarinnar
Þingflokksfundur Samfylkingarinnar mbl.is/Golli
Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ræðir við blaðamenn fyrir þingflokksfund sjálfstæðismanna.
Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ræðir við blaðamenn fyrir þingflokksfund sjálfstæðismanna. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert