Næstu skref í stjórnarmyndun

Stjórnarmyndunarviðræður standa enn yfir og fundað hefur verið stíft síðustu …
Stjórnarmyndunarviðræður standa enn yfir og fundað hefur verið stíft síðustu daga. mbl.is/RAX

Stefnt er að því að ljúka málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar á morgun eða í síðasta lagi á laugardagsmorgun. Ný ríkisstjórn tekur því að líkindum við stjórnartaumunum á laugardag. 

Vinstri græn hafa þegar kallað saman flokksráð sitt og fengið þaðan skýrt umboð til stjórnarmyndunar. Samkvæmt lögum Samfylkingarinnar þarf hún að kalla saman sína flokksstjórn og bera undir hana málefnasamning og ráðherraskipan í nýrri ríkisstjórn. Fundinn má  boða með 12 tíma fyrirvara hið minnsta en vonir standa til þess að á morgun liggi samkomulag við VG fyrir þannig að hægt sé að kalla fund saman síðla á morgun.

Framsóknarflokknum ber að fá samþykki miðstjórnar fyrir þátttöku í ríkisstjórnarsamstarfi en engar sérstakar reglur gilda um stuðning við minnihlutastjórn. Þar á bæ stendur engu að síður til að kalla miðstjórnina saman til að leggja blessun sína yfir samkomulagið.  Framsókn hyggst boða til blaðamannafundar síðar í dag og skýra sínar áherslur hvað varðar stjórnarmyndunina.

Þess ber að geta að þó að nöfnin séu mismunandi þá er flokksstjórn Samfylkingar, flokksráð VG og miðstjórn Framsóknar raunar sama fyrirbærið. Þessir fundir fara með æðsta vald flokksins milli landsfunda, sem framsóknarmenn kalla reyndar flokksþing.

Þessa fundi sitja yfirleitt aðal- og varamenn stjórnar viðkomandi flokks, þingmenn, varaþingmenn, sveitarstjórnarfulltrúar, formenn svæðisfélaga, formenn kjördæmaráða, formenn svæðisfélaga, formenn ungliðahreyfinga og í kringum 30 fulltrúar sem kosnir eru sérstaklega af landsfundi.

Oftast eru þessir fundir hins vegar opnir öllum flokksfélögum en einungis fulltrúar hafa atkvæðarétt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert