Hægt að halda áfram þingstörfum eftir þingrof

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að hægt væri að halda þingstörfum áfram þótt þing hafi verið rofið. Rjúfa þarf þing 12. mars miðað við að kjördagur verði 25. apríl.

Óvissa um þingrof

Jóhanna sagði að ekki væri búið að ákveða hvenær þing yrði rofið en hún sagði ljóst að töluvert lengri tíma þyrfti til en til 12. mars næstkomandi en sú dagsetning hefur helst verið nefnd í þessu samhengi. Þá væri ekkert skrítið þó þingið héldi áfram löggjafarstörfum þó það hefði verið rofið og boðað til kosninga.

Þetta kom fram í svari Jóhönnu við fyrirspurn Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að niðurstaða yrði að koma í þetta mál sem fyrst til að flokkarnir geti gert sínar ráðstafanir.

Jóhanna sagði að í raun væri hægt að draga þingrof fram til 27. mars. Vonandi yrði ákvörðun um þingrof tekin sem allra fyrst. Þá væri það ljóst að miðað við afgreiðsluhraða þingsins þyrfti meiri tíma til að klára þau mikilvægu mál sem nú væru til umfjöllunar á þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert