Jón Baldvin skorar á Jóhönnu í formanninn

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. Ragnar Axelsson

„Ég beini því til samfylkingarfólks að hvetja Jóhönnu til að skoða hug sinn og á meðan bíð ég átektar, því ég bíð mig ekki fram gegn henni það er alveg ljóst,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson, sem tilkynnti í lok febrúar um þátttöku sína í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík og að hann hyggðist fara gegn Ingibjörgu Sólrúnu í formannskosningum segði hún ekki af sér.

„Mín fyrstu viðbrögð eru þau að óska þess af öllu hjarta að Ingibjörg Sólrún einbeiti sér nú að því að ná aftur heilsu, ég þykist vita að allir samlandar hennar hvar í flokki sem þeir standa taki undir það. Auðvitað á hún afturkvæmt í íslensk stjórnmál ef hún þess óskar þegar hún hefur náð heilsu sinni á ný,“ segir Jón Baldvin.

Hvað varði pólitíkina segist Jón Baldvin hinsvegar fyrst og fremst skora á Jóhönnu Sigurðardóttur að hugsa það vandlega að gefa kost á sér sem formaður á Landsfundi, en Jóhanna aftók á blaðamannafundi í dag að hún hefðu hug á að taka við Ingibjörgu í formannsstól.
„Mér er nú kunnugt um það af fyrri reynslu að það er erfitt að telja henni hughvarf, en hún er forsætisráðherra í umboði Samfylkingarinnar, hún er að vinna mikilvæg verkefni og nýtur trausts í sínum flokki og meðal þjóðarinnar til þeirra verka og mér finnst að hún eigi bara að klára þau,“ segir Jón Baldvin.

Jóhanna verði áfram forsætisráðherra

„Ég mun bíða átekta núna á næstunni með ákvarðanir að því er mig varðar, en fari það svo að Samfylkingarfólk á Landsfundi vilji fela mér forystu þá er sú afstaða mín óbreytt að Jóhanna er okkar forsætisráðherra, hún verður í því hlutverki í kosningabaráttunni og þeim verkum er ekki lokið, þannig að jafnvel þótt ég verði formaður þá myndi ég beina því til hennar að gegna því starfi áfram ef samfylkingin verður í stjórn, sem ég vona.

„Minn metnaður snýr að því á grundvelli minnar eigin reynslu að einbeita mér að viðræðum og samningum við Evrópusambandið sem ég tel stærsta mál næsta kjörtímabils. Ég hef reynslu af því að semja við Evrópusambandið í fjögur ár og ég teldi að mínum kröftum verði best varið til þess að einbeita mér að þessum samningum við Evrópusambandið og Evrópusambandsþjóðir. Því það er þar sem framtíð okkar ræðst, bæði að því er varðar að semja um greiðslukjör á yfirþyrmandi skuldum, að semja um aðgang að traustum gjaldmiðli og skipa Íslandi í þar í sveit sem við getum verið normalt þjóðfélag í samstarfi við grannþjóðir okkar á jafnréttisgrundvelli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert