Víglínan markast í Kraganum

„Ég er mjög þakklátur. Mér er sýnt gríðarlegt traust en það fylgir því mikil ábyrgð að leiða listann,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. Árni Páll varð efstur í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi, hlaut 1184  atkvæði í 1. sæti.

Árni segir að mikill og glæsilegur hópur hafi boðið sig fram og útkoman sé afskaplega sterkur listi.

„Það er gríðarlega mikilvægt að fá Lúðvík Geirsson inn í þingmannahópinn. Hann er einn af okkar bestu mönnum, er þaulreyndur á sviði sveitarstjórnarmála og hefur unnið mikla sigra fyrir flokkinn.“

Lúðvík sóttist, líkt og Árni Páll, eftir fyrsta sætinu í kjördæminu og munaði aðeins 57 atkvæðum á þeim þegar upp var staðið.

„Toppurinn var laus og við öttum kappi en gerðum það í miklu bróðerni og af heiðarleika. Við höfum þekkst í áratugi og það situr ekkert eftir að loknu prófkjörinu,“ segir Árni Páll.

Nýr maður tekur fimmta sætið á listanum, Magnús Orri Schram. Árni Páll segir Samfylkinguna eiga að sækja fimmta mann flokksins í kjördæminu.

„Víglínan í komandi kosningum mun markast í þessu kjördæmi. Þarna er gríðarlegur fjöldi fólks sem hefur treyst á Sjálfstæðisflokkinn hingað til en upplifir nú algjört hrun vegna verka Sjálfstæðisflokksins, í óraunhæfri efnahagsstjórn og innistæðulausum skattalækkunum og kannski ekki síður verkleysis, þar sem menn dröttuðust ekki til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að þetta fólk geri sér alveg grein fyrir því að það þarf breytingar og það hlýtur að vera verkefni okkar að svara kalli þessa fólks um breytingar, ný viðhorf og skýr fyrirheit um það hvernig við ætlum að vísa leiðina út úr þessum vanda,“ segir Árni Páll Árnason, leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert