Bankahrun afgreitt sem sakamál

Þór Saari, talsmaður Borgarahreyfingarinnar, sagði í viðtalsþættinum Zetunni á mbl.is, að flokkurinn vilji að bankahrunið hér á landi verði afgreitt sem sakamál en ekki bankagjaldþrot. Reynt verði að sækja fé til stjórnenda og eigenda fjármálastofnananna þannig að tjónið lendi ekki á almenningi.  

Þór sagði, að brýnasta spurningin, sem brenni á almenningi nú, sé hvers vegna velta eigi skuldum óreiðumanna og fjárglæframanna í gamla bankakerfinu yfir á almenning. Sagði Þór að allir fjórir flokkarnir þegi sem gröfin um þetta.

„Vinstrihreyfingin-grænt framboð sópaði þessari spurningu undir teppið á landsfundinum um helgina og ég hef grun um að það sama muni gerast á landsfundum Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins," sagði Þór.

Hann sagði m.a., að Borgarahreyfingin vilji, að verðtryggðum lánum einstaklinga verði skuldbreytt þannig, að þau miðist við stöðu þeirra eins og hún var í  janúar 2008. Sagði Þór, að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi íslensk stjórnvöld þá vitað hvert stefndi en ekki látið almenning vita af því. 

Þór sagði, þegar hann var spurður hvaða flokkum Borgarahreyfingin vildi helst starfa með, að Sjálfstæðisflokkurinn bæri mesta ábyrgð á hruni íslensks samfélags og væri því ekki stjórntækur í það minnsta næstu fjögur árin. Borgarahreyfingin horfði því til samstarfs við félagshyggjuflokka nái hún ekki hreinum meirihluta, eins og hún stefni að. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert