Fordæma uppsögn Vigdísar

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir

Stjórn Landssambands framsóknarkvenna fordæmir ákvörðun Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ að gera Vigdísi Hauksdóttur lögfræðingi að hætta störfum hjá ASÍ eftir að hún var valin á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Vigdís sóttist eftir launalausu leyfi fram yfir kosningar, en var neitað um það.

„ Alþýðusamband Íslands á að vera brjóstvörn fyrir mannréttindi félagsmanna sinna og ganga fram fyrir skjöldu í því að tryggja rétt þeirra til að taka þátt í pólitísku starfi í landinu.

Með þessari ákvörðun er ASÍ að sýna af sér dæmalausa pólitíska misbeitingu valds. Fordæmi ASÍ færir jafnframt atvinnurekendum um allt land tækifæri til að segja upp fólki einungis fyrir þá ástæðu að taka þátt í pólitísku starfi. Það er löng hefð fyrir því að forystumenn og starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar taki þátt í stjórnmálum og taki sæti á lista. Í 6. sæti á lista Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi er t.d. yfirlögfræðingur ASÍ í launalausu leyfi.

Forseti ASÍ Gylfi Arnbjörnsson er áberandi áhrifamaður innan Samfylkingarinnar sem var jafnvel orðaður við formennsku í þeim flokki á tímabili. Þar heggur sá er hlífa skyldi," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert