Íhugaði vel samstarf við VG

Mikill mannfjöldi er viðstaddur setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Mikill mannfjöldi er viðstaddur setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Júlíus

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í setningarræðu á landsfundi flokksins síðdegis, að hann hefði íhugað mjög vel, að taka upp samstarf við Vinstri græna eftir alþingiskosningarnar í maí 2007. Sagðist Geir hafa reynt forystumenn VG að orðheldni og heilindum í löngu samstarfi á Alþingi.

„Það var hins vegar of breitt málefnalegt bil milli flokkanna, ekki síst í orkumálum og afstöðu til auðlindanýtingar. Þótt slík ríkisstjórn hefði á margan hátt verið spennandi kostur þá hefði hún aldrei haft burði til að ráðast í þau verkefni sem við sjálfstæðismenn vildum leggja áherslu á.

Það voru því fyrst og fremst málefnin sem réðu því að við ákváðum að ganga til samstarfs við Samfylkinguna, auk þess sem það var mikill kostur að geta treyst á stóran þingmeirihluta í þeim hremmingum, sem við sáum þá fram á, þótt engan hafi grunað að þær yrðu að þeim hamförum sem síðar varð raunin," sagði Geir. 

Setningarræðan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert