Átti að gera skýrari kröfur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á landsfundi Samfylkingarinnar, ásamt Rannveigu Guðmundsdóttur.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á landsfundi Samfylkingarinnar, ásamt Rannveigu Guðmundsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði þegar hún setti landsfund flokksins  nú síðdegis, að hennar stærsta yfirsjón hafi verið að hafa ekki gert mun afdráttarlausari kröfur um breytingar á stjórnkerfinu þegar Samfylkingin efndi til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokk vorið 2007.

„Breytingar sem hefðu tryggt meiri fagmennsku, gagnrýni og gagnsæi í stjórnkerfinu. Í Sjálfstæðisflokknum fer auðvald og ríkisvald hönd í hönd. Hér ríkir kunningjakapítalismi. Sjálfstæðismenn eru ráðandi jafnt í fyrirtækjum sem stjórnkerfi og sú samtrygging sem þannig hefur komist  á leiðir til aga-  og aðhaldsleysis.  Ég hef sjálf margítrekað sett þetta fram í opinberri umræðu á liðnum árum og þessvegna átti ég og við öll í Samfylkingunni að vita þetta. Það sem sló hins vegar ryki í augu okkar voru þær mannabreytingar sem þá höfðu orðið í forystu flokksins. Nýir og geðþekkari einstaklingar höfðu tekið við stjórninni og við bundum vonir við þá. Við horfðum framhjá því  við stjórnarmyndunina að vandamálið er ekki fólkið heldur flokkurinn. Hér höfum við bara við okkur sjálf að sakast," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði, að önnur yfirsjón væri, að hafa ekki gert kröfu um miklu fastara og ákveðnara taumhald á aðgerðum ríkisins strax og Glitnismálið kom upp.  Aðgerðir hefðu verið of fálmkenndar, upplýsingar verið af skornum skammti og framkvæmd tekið alltof langan tíma.

„Þetta vil ég endilega segja hér,  ekki vegna þess að ég telji mig þannig geta fullnægt formsatriði sem gerir mér kleift að kasta syndunum bakvið mig og hafa jafnvel af því pólitískan ávinning, heldur vegna þess að það er mín skoðun að við verðum að horfast í augu við að þarna liggi hin pólitíska ábyrgð Samfylkingarinnar gagnvart samfélaginu og mín þar með.  Við fylgdum ekki nógu fast eftir okkar eigin sannfæringu um nauðsynlegar umbætur, við fylgdum ekki orðum eftir með athöfnum, við létum gildismat Sjálfstæðisflokksins og viðskiptalífsins yfir okkur ganga og súpum nú seyðið af því ásamt með þorra þjóðarinnar," sagði Ingibjörg Sólrún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert