Evra ekki í sjónmáli næstu ár

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Árni Sæberg

Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins leggur til að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ganga eigi til viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Í ályktun landsfundar um Evrópumál segir að sterk lýðræðisleg rök mæli með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt um umdeilt mál. Gengið verður til atkvæðagreiðslu um ályktun um Evrópumál seinna í dag.

Jóhann Páll Símonarson, landsfundargestur, lagði fram tillögu um að Evrópumálin yrðu tekin af dagskrá. Greidd voru atkvæði um þessa tillögu hans og var hún felld með  yfirgnæfandi mun.

„Í mínum huga er það ljóst að evra verður ekki  tekin upp einhliða,“ sagði Kristján Þór Júlíusson,“ formaður Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sem hann flutti þegar hann gerði grein fyrir niðurstöðum Evrópunefndar. Fram kom í máli Kristjáns að kostir aðildar tengdust helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál yrðu aðeins skýrð í aðildarviðræðum.

„Það er ekkert annað en tálsýn að halda að það sé á nokkurn hátt raunhæfur möguleiki að taka upp evru á næstunni,“ sagði Kristján. Hann sagði að það yrði ekki hægt næstu tvö til fjögur ár.  

Ekki á bónorðshné
Björn Bjarnason, alþingismaður, tók til máls og sagðist hlynntur því að haldnar yrðu tvær atkvæðagreiðslur. Miðað við núverandi skilyrði aðildar væri verið að afsala þjóðina fiskveiðiauðlindum og kippa stoðum undan íslenskum landbúnaði.  Björn sagði að það væri hægt að taka upp viðræður um samstarf í gjaldmiðilsmálum án þess að sækja um aðild. Björn gagnrýndi Breta harðlega í ávarpi sínu og þá  framkomu sem þeir hefðu sýnt okkur í haust. „Við ættum ekki að leggjast á bónorðshné gagnvart Evrópusambandinu,“ sagði Björn. Hann sagði jafnframt að utanríkisráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) hefði reynt að „troða okkur í Evrópusambandið hvað sem tautaði og raulaði“. Hann gagnrýndi harðlega viðbrögð fyrrverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar sem hann sat sjálfur í, í kjölfar þess hvernig komið var fram við íslensku þjóðina af Bretum.

Pétur Blöndal alþingismaður sagði að Evrópusambandið hefði kúgað íslensku þjóðina til að ábyrgjast Icesave-reikningana, þetta þýddi að Ísland myndi ekki uppfylla Maastricht-skilyrði aðildar fyrr en eftir tíu ár. Hann kvaðst sjálfur andvígur aðild og lagði til að landsfundur ályktaði í þá veru.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og annar formaður Evrópunefndar flokksins, sagðist ekki hafa gengið í Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að flokkurinn væri hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Hann vísaði til þess að tillaga Evrópunefndarinnar hefði verið kölluð „moðsuða". Hann lagði áherslu á samstöðu.  

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert