Siðrof í íslensku samfélagi

Ingibjörg Sólrún flytur setningarræðu sína.
Ingibjörg Sólrún flytur setningarræðu sína. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði þegar hún setti landsfund flokksins í dag, að hún hefði að undanförnu reynt að skilja það siðrof sem varð í íslensku samfélagi þegar ákveðinn hópur manna hætti að sækja sér viðmið í íslenskan veruleika, tók upp lífshætti erlendra auðmann og gaf goðsögninni um stéttlaust samfélag á Íslandi langt nef.

„Svo er ég enn að reyna að komast til botns í því hvers vegna íslenskt samfélag gekkst inn á þetta,  þó að ekki væri nema með þegjandi þögninni eða með því að taka fagnandi þeim brauðmolum sem hrutu af borðum auðmannanna  og má þá einu gilda hvort í  hlut áttu rithöfundar, leikhúsfólk, stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, sveitarstjórnarmenn, skólamenn eða aðrir framámenn í samfélaginu," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagðist ekki hafa fundið svörin við öllum þessum spurningum en teldi þó nokkrar meginástæður vera fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem myndaðist á íslenskum fjármálamarkaði og leiddi að til tvöfaldrar kreppu á Íslandi, bankakreppu og gjaldeyriskreppu:

  1. Alþjóðavæðing fjármálakerfisins með EES samningnum á grundvelli örmyntar, sem enginn þekkir, án þess að viðeigandi varnir væru tryggðar innanlands með nægilega öflugum eftirlitsstofnunum og mun stærri gjaldeyrisvaraforða. 
  2. Einkavinavæðing bankanna þegar dreifð eignaraðild var látin lönd og leið en ákveðnir hópar handvaldir af ráðherrum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að eignast ráðandi hlut í bönkunum.
  3. Alvarleg hagstjórnarmistök á síðasta kjörtímabili þessara flokka sem voru þensluhvetjandi og juku verulega skuldsetningu heimila og fyrirtækja.
  4. Eigendur og helstu stjórnendur bankanna voru of gráðugir og of reynslulitlir í bankamálum. Þeir ætluðu að sigra heiminn en horfðust ekki í augu við að það tekst engum sem ekki á sér öflugan bakhjarl.
  5. Skortur á tímabærri greiningu og tillögum frá eftirlitsstofnunum um aðgerðir sem gætu sett fjármálakerfinu nauðsynlegar skorður. Flest bendir hins vegar til að þegar komið var fram á árið 2007/2008 hafi fjármálakerfið þegar verið vaxið landinu yfir höfuð og  engar aðgerðir hefðu dugað nema neyðaraðgerðir með tilheyrandi áföllum.
  6. Alþjóðlegur fjármálafellibylur sem feykti um koll mörgum af stærstu fjármálastofnunum heimsins en þá lokaðist á augabragði fyrir lausafé til banka og fjármálafyrirtækja sem varð til þess að knésetja íslensku bankana.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert