Evróputillaga samþykkt

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni

Tillaga um Evrópumál var samþykkt með þorra atkvæða á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eftir hádegið. Samkvæmt henni er það skoðun flokksins að ákveði Alþingi eða ríkisstjórn að sækja skuli um aðild að Evrópusambandinu skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun. Niðurstaðan úr aðildarviðræðum verði einnig borin undir þjóðaratkvæði.

Nokkrar breytingar voru gerðar á upphaflegri tillögu, sem lá fyrir fundinum, í samræmi við breytingartillögur sem komu fram í umræðu um málið í morgun. Kristján Þór Júlíusson, formaður Evrópustefnunefndar flokksins, gerði grein fyrir breyttri tillögu og sagði að hún fæli í sér, að sú skoðun Sjálfstæðisflokksins hefði ekki breyst, að Íslandi væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Hins vegar gerði mæltu lýðræðisleg rök með því, að þjóðin fái að skera úr um málið og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna.

Áður en tillagan var borin undir atkvæði felldi fundurinn tillögur, sem annars vegar gerðu ráð fyrir því að formanni flokksins væri falið að undirbúa umsókn um aðild að ESB og hins vegar að tillaga Evrópunefndarinnar yrði felld og því lýst yfir að ekki yrði sótt um ESB-aðild.

„Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að ganga í Evrópusambandið. Ég skil ekkert í landsfundarfulltrúum að segja það ekki bara beint út,“ sagði Pétur Blöndal, alþingismaður, einn þeirra sem lagði fram tillögu um að tillaga Evrópunefndar yrði felld.

„Guð fyrirgefi Pétri, hann ætlar að eyðileggja flokkinn,“ sagði Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur og staðarhaldari í Viðey. Þórir lagði áherslu á að landsfundarfulltrúar styddu það sem Björn Bjarnason sagði, en Björn kom í pontu og lagði áherslu á að landsfundarfulltrúar samþykktu lokadrög ályktunarinnar.

Ályktun landsfundar um Evrópumál:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt er talið að mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja. Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum.

Sterk lýðræðisleg rök mæla engu að síður með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt og umdeilt mál og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna.

Landsfundurinn undirstrikar þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir auðlindum Íslands og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

Landsfundur telur að setja skuli almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.

Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri aðild að Evrópusambandinu er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna. Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá  afstöðu sína að hugsanleg niðurstaða úr samningaviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði ávallt borin undir þjóðaratkvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert