Tengir ríki og sveitastjórn

Dagur B. Eggertsson á landsfundi Samfylkingarinnar.
Dagur B. Eggertsson á landsfundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

„Ég set stefnuna eindregið á Samfylkinguna í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar og hlakka líka til að vinna með félögum mínum um land allt að undirbúningi sveitastjórnarkosninganna 2010,“ segir Dagur B. Eggertsson, nýr varaformaður Samfylkingarinnar. Sú niðurstaða að hafa sveitastjórnarmann í þessu embætti auki á breiddina í flokksforystunni.

„Það sendir þau sterku skilaboð að Samfylkingin lítur þannig á að til að okkur takist að komast út úr þeirri erfiðu stöðu sem samfélagið er í þá skiptir ekki bara máli að hvað er að gerast á vettvangi Alþingis eða ríkisstjórnar heldur ekki síður í sveitarfélögunum eða samfélögunum sjálfum. Þar ráðast úrslitin um hvort fólk hafi vinnu og velferðarþjónustan er að mestu leyti veitt og þar sem krakkarnir eru í skóla. Þetta er pólitík hins daglega lífs sem stendur mjög nærri hjarta jafnaðarmanna.“

Dagur kveðst hafa boðið sig fram til að sinna nokkurs konar brúarsmíði innan flokksins.

„Mér finnst mikilvægt að tengsl séu milli Alþingis og sveitastjórnastigsins, milli flokksmanna og forystunnar, milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Ég lít ekki á þetta sem einkaverkefni heldur bauð ég mig fram til að leiða þennan stóra hóp flokksmanna sem brennur fyrir því að byggja Samfylkinguna upp sem nýja kjölfestu í íslenskum stjórnmálum.“

Dagur fékk um tvo þriðju atkvæða landsfundargesta en segist ekki endilega hafa búist við svo afgerandi kjöri. Árni Páll Árnason, sem hann hafi jafnan kallað meðframbjóðanda sinn, sé bæði góður forystumaður og framtíðarmaður í Samfylkingunni.

Sjálfur sagðist Árni Páll í samtali við mbl.is myndu hafa nægum verkefnum að sinna, leiðandi lista Samfylkingarinnar í stærsta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi. Hann hefði ekkert nema gott um niðurstöðuna að segja og keppnin milli hans og Dags hefði verið drengileg.

Þurfa að ná saman um lykilatriðið, ESB

Dagur segir að á sínum ferli hafi félagshyggjustjórn alltaf verið fyrsti kostur. Núverandi ríkisstjórnarsamstarf gangi mjög vel, Jóhanna sé geysilega öflugur og góður verkstjóri og ráðherrarnir hafi verið að standa sig. Hins vegar sé aldrei hægt að semja um stjórnarmyndun í fjölmiðlum.

„Það er alveg ljóst að flokkarnir þurfa m.a. að ná saman um það sem við teljum vera lykilatriði til þess að atvinnulífið komist á kjöl og heimilin líka. Það er að taka upp nýja mynt og gerast aðili að Evrópusambandinu.“

Aðspurður um tillögu Vinstri grænna um þrepaskiptan tekjuskatt segir Dagur Samfylkinguna ekki hafa tekið afstöðu til einstakra hugmynda og ekki vera komna í stjórnarmyndunarviðræður. Samfylkingin sé ábyrgur flokkur í fjármálum og frjálslyndur að mörgu leyti. Hann muni nú forgangsraða mjög í þágu velferðar og þeirra sem minna mega sín. Það verði býsna erfitt verkefni sem þarfnast heilmikillar hugkvæmni á sviði ríkisfjármála.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert