Aldrei fleiri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins

Fjölmennur landsfundur sjálfstæðismanna.
Fjölmennur landsfundur sjálfstæðismanna. Júlíus Sigurjónsson

Aldrei hafa fleiri tekið þátt í landsfundi Sjálfstæðisflokksins en tæplega 2.000 manns voru á fundinum þegar flest var, að því er fram kemur í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum. Í formannskosningu tóku þátt 1.705 manns og hafa aldrei fleiri greitt atkvæði í henni.

Bjarni Benediktsson er nýr formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann var kosinn með 990 atkvæðu eða 58,1% atkvæða. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin varaformaður flokksins með 80,6% greiddra atkvæða. Fráfarandi formanni flokksins, Geir H. Haarde, voru þökkuð góð störf og var hann kvaddur með innilegu, langvarandi lófataki.

Fyrir utan stjórnmálaályktun samþykkti landsfundur ályktanir í 15 málaflokkum. Þær marka stefnu flokksins í komandi kosningum og fram til næsta landsfundar flokksins.

Nokkur mikilvæg atriði í ályktuninni eru m.a. þessi: 

  • Ljúka endurskipulagningu fjármálakerfisins innan þriggja mánaða.
  • Afnema hið fyrsta höft á gjaldeyrisviðskipti.
  • Koma í veg fyrir að miðstýring og ríkisvæðing verði að ríkjandi skipan. Slík ofstjórn grefur undan athafnafrelsi þjóðarinnar og þar með hagsæld hennar.
  • Hafna öllum nýjum sköttum á atvinnulífið og einstaklinga.
  • Skapa sátt um nýtingu auðlinda okkar og hefja þegar uppbyggingu orkufrekra atvinnugreina. Lögð er áhersla á að ekki verði skilið í sundur á milli verndar og nýtingar náttúruauðlinda landsins.
  • Ráðast í tímabundnar breytingar á skattkerfinu sem hvetja til nýráðninga og þróunarstarfs.

Til að verja heimilin er lagt til að

  • Íbúðareigendur muni geta lækkað greiðslubyrði sína um allt að helming í þrjú ár og framlengt lánstímann á móti.
  • Stefnt verði að því að í boði verði óverðtryggð lán og möguleikar á að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð, þegar verðbólga og vextir eru komin í viðunandi horf.
  • Öllum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um há- og millitekjuskatt er hafnað.
  • Stýrivextir Seðlabanka Íslands lækki og verði 5-6% undir lok þessa árs.
  • Ríkissjóður verður að vera rekinn með ábyrgum hætti. Ekki verður hjá því komist að draga verulega úr ríkisútgjöldum. Í þeim nauðsynlega niðurskurði sem framundan er mun Sjálfstæðisflokkurinn taka tillit til hagsmuna þeirra sem mest eiga undir högg að sækja svo sem öryrkja, lífeyrisþega og efnaminni fjölskyldna. Grunnþjónusta velferðar- og menntakerfisins má ekki skaðast.


Frelsi og ábyrgð verða alltaf að fylgjast að og á grundvelli þessa ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að:

  • Læra af reynslunni og byggja meðal annars á því uppgjöri  sem hefur farið fram í endurreisnarnefnd sjálfstæðismanna.
  • Beita sér fyrir því að tryggðir séu nægir fjármunir og heimildir fyrir þá sem annast rannsóknir á orsökum bankahrunsins þannig að öruggt sé að þeir sem hafa brotið lög séu sóttir til saka og látnir taka afleiðingum gjörða sinna.
  • Setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. 
  • Verja sjálfstæði þjóðarinnar og  tryggja yfirráð yfir auðlindum Íslands. Niðurstaða úr hugsanlegum viðræðum við Evrópusambandið skal borin undir þjóðina.


Ályktunin í heild má lesa á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, www.xd.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert