Vilja draga úr kostnaði við stjórnlagaþing

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Dregið verður verulega úr kostnaði og umfangi stjórnlagaþings, miðað við það sem áður var áætlað, samkvæmt breytingatillögum sem meirihluti stjórnarskrárnefndar gerir við frumvarp um stjórnarskrárbreytingar. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins að stefnt sé að því að afgreiða frumvarpið úr nefndinni í dag.

Sérnefnd um stjórnarskrármál hefur fjallað um frumvarp um breytingar á stjórnarskránni en í því er m.a. tillaga um stjórnlagaþing. Útvarpið sagði að á fundi nefndarinnar í gær hefði komið til snarpra orðaskipta  og þar hefði Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagt að formaður nefndarinnar, Valgerður Sverrisdóttir, væri gjörsamlega óhæf til að leiða starfið.

Björn segir á heimasíðu sinni, að  sjálfstæðismenn í nefndinni telji vinnubrögðin þar fyrir neðan allar hellur. Öllum sé ljóst, hve sú meginregla sé mikils virði, að sæmileg sátt sé milli stjórnmálaflokka um breytingu á stjórnarskránni, en það viðhorf hafi ekki enn náð til meirihlutans í sérnefndinni.

Ríkisútvarpið hefur eftir Valgerði, að nefndin muni funda í dag og þar sé stefnt að því að afgreiða málið og reynt verði til þrautar að ná samkomulagi allra flokka.

Meirihluti nefndarinnar gerir tillögu um að starfstími stjórnlagaþings verði styttur miðað við upphaflegu tillögurnar og að fulltrúar þar sitji ekki á þinginu í fullu starfi. Ekki verði haldnar sérstakar kosningar til stjórnlagaþings heldur kosið á það um leið og kosið verður til sveitastjórna á næsta ári.

Áætlað var að kostnaður við stjórnlagaþing gæti numið allt að 2 milljörðum króna en nú er að sögn Útvarpsins giskað á að kostnaður samkvæmt breyttum tillögum  geti numið 100-300 milljónum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert