Njótum góðra verka ríkisstjórnarinnar

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar.
Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

„Þetta er auðvitað mjög ánægjuleg vísbending þó að þetta sé vissulega bara skoðanakönnun. Reynslan kennir manni að það þurfi að hafa fyrir hlutunum og heyja kosningabaráttuna af krafti fram á síðasta dag,“ segir Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar um fylgi flokksins á landsvísu. Samfylkingin mælist nú með 32,6 prósenta fylgi, bætir við sig 3,2 prósentustigum frá síðustu könnun Capacent.

Dagur segir að Samfylkingin sé að njóta þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi látið hendur standa fram úr ermum á sínum stutta starfstíma. Það sé ákall eftir áframhaldandi ábyrgð og festu við landsstjórnina. Síðan skipti máli að Samfylkingin er búin að leggja fram skýra sýn á það hvernig hægt sé að ráða fram úr málum og komast sem þjóð út úr kreppunni.

„Við höfum með öðrum orðum framtíðarsýn og kosningar snúast ekki síst um framtíðina. Það er það erindi sem við eigum núna við óákveðna kjósendur og fólkið í landinu, að tala fyrir þessari sýn. Við vorum að gefa hana út á bók í gær, efnahagsáætlunina okkar og þó að þetta séu fínar tölur þá held ég að við eigum ennþá eftir að ræða við ýmsa sem ég vona að muni slást í för með okkur fram að kosningum,“ segir Dagur B. Eggertsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert