Samfylking eykur forskot sitt

Samfylkingin mælist enn stærst íslenskra stjórnmálaflokka, með 32,6 prósenta fylgi, samkvæmt könnun, sem Capacent Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið og Morgunblaðið um fylgi flokkanna á landsvísu. Samfylkingin bætir við sig 3,2 prósentustigum frá síðustu könnun Capacent í lok mars.

Heldur dregur sundur með stjórnarflokkunum. Vinstrihreyfingin grænt framboð mælist nú með 26 prósenta fylgi, sem er 1,7 prósentum minna en í síðustu könnun Capacent.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,7 prósenta fylgi sem er lítið breytt frá síðustu könnun, þá mældist fylgi flokksins 25,4 prósent.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 9,8 prósent en mældist 10,7 prósent í lok mars.

Borgarahreyfingin virðist sækja í sig veðrið, mælist nú með 3,6 prósenta fylgi en mældist með 3 prósent í síðustu könnun Capacent.

Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með 1,1 prósent fylgi en var með 1,4 prósent í síðustu könnun og P-listi Lýðræðishreyfingarinnar mælist með 0,8 prósenta fylgi. Aðrir flokkar mælast með 0,2 prósenta fylgi.

40 þingmanna meirihluti

Samkvæmt þessum niðurstöðum fengi Samfylkingin 22 þingmenn og VG fengi 18 þingmenn. Stjórnarflokkarnir fengju því samtals 40 þingmenn sem verður að teljast nokkuð traustur meirihluti. Sjálfstæðisflokkur fengi 17 þingmenn og Framsóknarflokkur 6. Aðrir flokkar ná ekki manni inn á þing samkvæmt könnun Capacent.

Marktækur munur milli kynja

Marktækur munur er á stuðningi kynjanna við flokkana. Mun fleiri karlar styðja Framsóknarflokk, Sjálfstæðisflokk og Borgarahreyfinguna en fleiri konur styðja Samfylkinguna. Ekki er marktækur munur á stuðningi kynjanna við Vinstri hreyfinguna grænt framboð.

Óákveðnum fækkar

Samkvæmt könnun Capacent fækkar þeim sem eru óákveðnir eða neita að svara. Nú segjast 7,6 prósent vera óákveðnir eða neita að svara en voru 9,4 prósent í lok mars.

Þá segjast heldur færri ætla að skila auðu eða 9,8 prósent en 12,4 prósent sögðust í lok mars ætla að skila auðu.

Stuðningur við ríkisstjórnina svipaður

Stuðningur við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna er svipaður nú og var í könnun Capacent í lok mars. Nú segjast 59,2 prósent styðja ríkisstjórnina, 40,8 prósent segjast ekki styðja stjórnina. Í mars sögðust 60,6 prósent styðja stjórnina en 39,4 prósent svöruðu spurningunni neitandi.

Af þeim sem segjast styðja ríkisstjórnina eru 66 prósent kvenna en 53 prósent karla. Þá er stuðningur við ríkisstjórnina meiri meðal eldra fólks.

Framkvæmd könnunarinnar

Um er að ræða net- og símakönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 1. – 7. apríl. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr viðhorfahópi Capacent Gallup en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Heildarúrtaksstærð var 3483 manns 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 61,6%.

Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum:  „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“  Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“ Fyrir þá sem sögðu líklegra að þeir kysu einhvern hinna flokkanna voru reiknaðar út líkur þess að þeir myndu kjósa hvern flokk, út frá svörum þeirra sem tóku afstöðu í fyrstu tveimur spurningunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert