Enn ósamið um þinglok

Enn er ósamið um þinglok. Vonast var eftir því að málin skýrist eftir þingflokksfundi sem voru síðdegis eða í kvöld.  Þær raddir heyrast meðal þingmanna að fresta beri öllum málum enda stutt í kosningar og ágreiningur um hvað sé brýnt og hvað ekki.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þó  fyrir þingflokksfund síðdegis að það væri ekki krafa sjálfstæðismanna, þeir vildu greiða fyrir framganhi  nokkurra mála á dagskránni, svo sem frumvarpi um hækkun vaxtabóta.

Guðlaugur Þór þórðarson var ekki á þingflokksfundi Sjálfstæðismanna, að minnsta kosti ekki á fyrri hluta hans, en hann mun hafa verið á kosningafundi. Bjarni Benediktsson segir ofurstyrkjamálinu lokið og ekki standi til að opna bókhald einstakra frambjóðenda í  prófkjörum í framhaldi af ummælum Svandísar Svavarsdóttur sem taldi málið vekja upp spurningar um mútur.

Bjarni segir að það komi ekki til greina að þeir sem séu í framboði fyrir aðra flokka bendi með vísifingri á einstaka frambjóðendur í Sjálfstæðisflokknum og krefjist þess að þeir komi með sitt upp á borð. Það gildi lög um þessa hluti sem Sjálfstæðismenn hafi staðið að því að setja og flokkurinn ætli sér að framfylgja þeim.

Bjarni sagði að Guðlaugur Þór Þórðarson yrði áfram í þingflokknum. Aðspurður um hvort fullar sættir hefðu náðst við hann svaraði Bjarni: „Ég hef ekki verið í neinum ágreiningi við hann."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert