Kjörstjórn klofnaði í Kraganum

Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi klofnaði í afstöðu til lögmætis framboðs Lýðræðishreyfingarinnar. Meirihluti kjörstjórnar eða þrír kjörstjórnarmenn af fimm úrskurðuðu framboðið gilt, þrátt fyrir að frambjóðendur lýstu ekki yfir framboði í tilteknu kjördæmi. Tveir nefndarmenn vildu hins vegar úrskurða framboðið ógilt.

Lýðræðishreyfingin skilaði inn framboðslistum í öllum kjördæmunum sex. Allir frambjóðendur á listunum staðfesta framboð sitt fyrir Lýðræðishreyfinguna en tilgreina ekki sérstaklega í hvaða kjördæmi þeir bjóða sig fram. Yfirkjörstjórnir túlka ákvæði kosningalaga mismunandi.

Framboð Lýðræðishreyfingarinnar hefur verið úrskurðað gilt í fjórum kjördæmum, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi. Yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæmanna úrskurðuðu hins vegar framboðslistana ógilda.

Fullvíst má telja að úrskurðum yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæmanna verði skotið til landskjörstjórnar sem sker úr um hvort Lýðræðishreyfingin fær að bjóða fram eða ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert